Myndlistarsýning í Sauðárkrókskirkju – Síðustu verk Ninna málara
Næstkomandi sunnudag, 25. mars, opnar sýning í Sauðárkrókskirkju á verkum Jónasar Þórs Pálssona, Ninna málara, þar sem píslarsaga Jesú Krists er rakin. Um tíu myndir er að ræða, listilega vel gerðar og fallegar. Í síðasta Sjónhorni slæddist röng dagsetning með auglýsingu um sýninguna en þar stóð að hún hæfist 25. apríl, en hið rétta er 25. mars og hefst klukkan 13.
Það er Sigrún Fossberg Arnardóttir sem á heiðurinn af sýningunni í kirkjunni en hún segir sýninguna tilkomna eftir samtal sitt við Erlu Gígju Þorvaldsdóttur, ekkju Jónasar. „ Það var svolítið skemmtilegt hvernig sýningin kom til,“ segir Sigrún. „Ég hitti Erlu Gígju í búðinni sem segir mér frá því að hún sé með myndir heima, síðustu verkin sem Ninni málaði. Hún spyr hvort ég sé tilbúin að kíkja á þetta hjá henni. Ég hélt það nú og spurði hvort henni væri ekki sama hvort ég tæki forstöðumann Listasafns Skagfirðinga, Sólborgu Unu Pálsdóttur, með mér í kaffi. Þegar ég sá myndirnar varð ég alveg á báðum áttum hvort hefði verið skynsamlegra að taka Sólborgu með mér eða sóknarprestinn því þessar myndir fannst mér alveg eins eiga heima hérna í kirkjunni eins og hvar staðar annars staðar og kannski miklu frekar.“ Það varð úr að Erla Gígja ákvað að gefa Listasafninu verkin. Eftir að þær Sigrún og Sólborg höfðu skoðað myndirnar hjá Erlu tók Sigrún myndir af þeim á símann sinn sem kom sér vel þegar hún af tilviljun hitti sóknarprestinn, Hjálmar Jónsson, á förnum vegi.
„Ég segi honum frá þessu og sýndi honum myndir sem ég var með í símanum hjá mér og hann segir að við yrðum að sýna þetta í dymbilvikunni. Og loksins er þessi sýning komin upp,“ segir Sigrún. Myndirnar eru tíu talsins, sú fyrsta segir frá boðun Maríu og endar á upprisu Krists.
Eins og áður segir opnar sýningin sunnudaginn 25. mars klukkan 13 en Sigrún segir að það sé einnig tilvalið að nýta föstudaginn langa meðan á lestri Passíusálmanna stendur en þá getur fólk komið hvenær sem er yfir daginn og virt myndirnar fyrir sér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.