Litla hryllingsbúðin á Hvammstanga
Sumarleikhús æskunnar í Húnaþingi vestra sýnir uppsetningu sína á Litlu hryllingsbúðinni í Félagsheimili Hvammstanga laugardaginn 24. ágúst kl 18:00. Um er að ræða fyrstu uppsetningu sumarleikhússins, sem er sjálft nýtt af nálinni.
Það er Handbendi Brúðuleikhús sem stendur að sýningunni, með stuðningi Leikflokks Húnaþings vestra, sveitarfélagsins Húnaþing vestra og Barnamenningarsjóði Íslands. Í leikhópnum eru tíu ungmenni úr sveitarfélaginu á aldrinum 8 til 16 ára.
„Unga fólkið hefur unnið undir handleiðslu Péturs Guðjónssonar og tekið virkan þátt í öllum þáttum uppsetningarinnar, ekki aðeins leiknum heldur leikmyndarhönnun, búningahönnun, lýsingu og hljóðmynd, sem þýðir að verkefnið er leitt af unga fólkinu sjálfu,“ segir í tilkynningu frá Handbendi Brúðuleikhúsi.
Húsið opnar klukkan 17:30 og miðaverð kr. 1000. Athugið að enginn posi verður á staðnum.
Á heimasíðu Sumarleikhússins segir að Sumarleikhús æskunnar væri sjö vikna verkefni sem opið hafi verið öllum börnum og ungmennum frá 7-18 ára að aldri. Hófst starfsemin þann 18. júní og lýkur með sýningu hryllingsbúðarinnar, eins og áður segir nk. laugardag, 24. ágúst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.