Leynist lag í skúffunni? -Skagfirskir tónar frá skagfirskum konum
Nú er það ljóst að Sæluvika Skagfirðinga vrður haldin í haust og eru ýmsir farnir að undirbúa þátttöku. Hulda Jónasdóttir hefur verið iðin við að setja upp söngdagskrá í sínum gamla heimabæ og verður svo nú og ætlunin að flytja lög eftir skagfirskar konur.
„Við höfum nú þegar fundið fjölda laga en okkur langar mjög mikið að finna lög eftir ungar skagfirskar konur,“ segir Hulda. „Ef það eru einhverjar ungar skagfirskar tónlistarkonur sem hafa áhuga á að koma fram á tónleikunum og flytja eigin tónsmíðar þá bara endilega að setja sig í samband við mig í síma 8660114, já og fullorðnar líka.“
Hulda segir að allar upplýsingar séu vel þegnar ef einhver veit um skagfirskar konur sem eru að semja lög. „Það hefur komið okkur töluvert á óvart hversu margar skagfirskar konur eiga lög í skúffunni, eins og Anna Jóna, fyrrum leikskólakennari á Króknum og Guðbjörg, eða Gugga kennari,“ segir hún en verið er að raða saman dagskránni og velja flytjendur þessa dagana. Búið er að munstra Rögnvald Valbergsson sem hljómsveitarstjóra og Valgerður Erlingsdóttir mun kynna dagskrá. Meðal höfunda eru Fjóla Guðbrandsdóttir, Anna Jóna Guðmundsdóttir, Erla Gígja Þorvaldsdóttir, Valgerður Erlingsdóttir, Guðbjörg Bjarnadóttir, Sigurlaug Angantýsdóttir (Læla) og móðir hennar, Bára Jónsdóttir, og margar fleiri.
„Þetta eru allt saman ljómandi skemmtileg lög sem verða flutt og við lofum skemmtilegri kvöldstund í Gránu í Sæluviku.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.