Góðir hlutir gerast hægt - Liðið mitt Bryndís Rut Haraldsdóttir
Bryndís Rut Haraldsdóttir leikmaður mfl. kvenna hjá Tindastóli og fyrrverandi markmaður U19 landsliðsins er gallharður stuðningsmaður Liverpool. Hún er reyndar gallhörð í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur meira að segja að vera Seylhreppingur, þó hann heyri nú sögunni til. Hún er frá Brautarholti en segist að sjálfsögðu búa á Laugavegi 15 í póstnúmeri 560, þ.e. í Varmahlíð. Bryndís sækir vinnu til Sauðárkróks og starfar sem verkamaður hjá þjónustumiðstöð Skagafjarðar. Bryndís svarar hér spurningum í Liðið mitt.
Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Liverpool er mitt lið, hef haldið með þeim síðan ég man eftir mér. Ætli það sé ekki uppeldinu að þakka, ólst upp með tveimur hörðum Liverpool aðdáendum og þeir sannfærðu mig um að þetta væri aðalliðið.
Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ætla að segja að við endum í 3. sæti.
Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Liðið er í þriðja sæti eins og er en væri rosalega til í að sjá þá komast í annað sætið, þar af leiðandi fyrir ofan Manchester United.
Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já lendi frekar oft í því.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Gianluigi Buffon markmaður Juventus er minn maður. Hann er 39 ára, ennþá spilandi og er í hópi þeirra bestu. En svo var Steven Gerrard alltaf flottastur hjá Liverpool.
Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Nei, því miður! Enda setti ég mér það markmið fyrir árið 2018 að skella mér á leik. Það er næstum til skammar að maður hafi ekki skellt sér á leik.
Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já, ætli ég eigi ekki þrjár treyjur og einn gamlan trefil.
Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Er mjög léleg í því, það verður að viðurkennast.
Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei aldrei, finnst það fáránlegt að breyta um lið eftir velgengni liða á tímabilinu.
Uppáhalds málsháttur? -Batnandi manni er best að lifa.
Einhver góð saga úr boltanum? -Jájájá! T.d. þegar við fórum á Gothia cup 2011 í Svíþjóð þá fengum við að taka þátt í risastóru opnunaratriði. Biðin var löng en við vorum rosalega vinsælar og fullt af strákum sem vildu endilega fá myndir af sér með okkur. Í einum hópnum voru nokkrir strákar um 12 ára sem vildi að sjálfsögðu fá myndir af sér með okkur og ekkert mál, nema við sögðum við eina að gefa einum koss á kinnina því hann var svo mikil dúlla. Hún stökk til og gaf honum koss en viðbrögðin sem hún fékk voru frekar slæm, hann fór að hágráta. Drengurinn er líklegast skemmdur í dag.
Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Alex, kærasti minn, er reglulega að hrekkja mig. Hann laug því að mér að hann Maggi Hinriks væri með bótox í vörunum, sem væri samt fita af rassinum sett í varirnar, og að hann færi einu sinni á ári til læknis til að gera hann nú sætan… Ég trúði þessu í nokkra daga og munaði litlu að ég færi að spyrja Magga út í þetta.
Spurning frá Magga Hinriks: -Heldur þú að þú eigir eftir að upplifa það að sjá Liverpool lyfta Englandsmeistaratitli? -Að sjálfsögðu!! Góðir hlutir gerast hægt, sagði einhver snillingur við mig.
Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Væri gaman að sjá Baldur Inga Haraldsson bróðir minn svara þessum spurningum, hann er mikill áhugamaður enska boltans.
Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Af hverju hættirðu með Fantasy-baddan á snappinu?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.