Eldur í Húnaþingi - Hörku dagskrá framundan
Eldur í Húnaþingi er nú tendraður í 18. sinn en dagskrá hófst í gærmorgun, miðvikudag, með dansnámskeiði fyrir börn og stendur hátíðin fram á sunnudag. Hver viðburðurinn rekur annan og óhætt að telja að tónlistarfólk eigi eftir að halda uppi stemningu.
Á Facebooksíðu hátíðarinnar kemur fram að í upphafi hafi Eldur í Húnaþingi fyrst verið haldin sem unglistahátíð og þá bæði skipulögð og framkvæmd af ungi fólki í Húnaþingi vestra. Með tímanum hafi hátíðin á sig fjölskyldu- og bæjarhátíðarblæ og hefur dagskráin verið breytileg með ári hverju en oftar en ekki ræðst hún af áhugasviði stjórnenda. Nú í ár hefur ungt fólk tekið við framkvæmdarstjórn hátíðarinnar á ný og þótti því viðeigandi að líta aftur til fortíðar og var innblástur fenginn frá fyrri hátíðum. Gamlir og eftirminnilegir viðburðir verða haldnir á ný ásamt þeim árlegu viðburðum sem hafa einkennt hátíðina alveg frá upphafi. „Eldur í Húnaþingi hefur mikið gildi fyrir íbúa Húnaþings vestra en hátíðin einkennist af mikilli samheldni meðal íbúanna þar sem þátttaka er lykilatriði. Góður andi og brjálað stuð hefur verið ríkjandi á Eldinum alveg frá upphafi og verður hátíðin í ár engin undantekning,“ segir á síðunni.
Óhætt er að segja að stefnt sé á mikla stemningu með tónlistarfólki þar sem stuðlandsliðið mætir á svæðið. Ingó veðurguð verður með brekkusöng í Kirkjuhvammi á föstudagskvöldið og í kjölfarið verður dansleikur í félagsheimilinu þar sem hinir goðsagnakenndu Stuðmenn halda uppi fjöri. Á laugardagskvöldið mæta svo Paparnir í félagsheimilið og setja lokahnykkinn á viðburðaríkan dag.
Of langt mál er að telja allt upp sem í boði verður á Eldi í Húnaþingi en allir eru hvattir til að kynna sér hvað boðið er upp á.
Covid-19 áhrifin
Kórónuveiran hefur áhrif á Eldinn og segir í inngangi kynningabæklings hátíðarinnar að í ljósi aðstæðna hafi verið strembið að skipuleggja herlegheitin þar sem reglur um fjöldatakmarkanir og fleira hafi tekið sífelldum breytingum. Vegna þessa verður öll dagskrá að vera búin klukkan 23 og af þeim sökum hafi þurft að þjappa allri dagskrá saman, sem ekki reyndist auðvelt og vegna þess vill tíminn verða knappur milli sumra viðburða. „Vegna þessa þótti ekki við hæfi að halda tónleika í Borgarvirki eins og hefur verið gert síðustu ár. Þeir tónleikar verða færðir upp í Hvamm þar sem umferð til og frá Borgarvirki tekur einfaldlega of langan tíma,“ segir á FB síðu hátíðarinnar.
Sjá dagskrá HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.