Anthony Gurley til liðs við Tindastólsmenn
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur tryggt sér annan bandarískan leikmann fyrir baráttuna framundan. Það er Anthony Gurley, 28 ára gamall fjölhæfur leikmaður. Bæði Gurley og Myron Dempsey eru komnir með leikheimild og ættu að vera til í slaginn gegn Njarðvíkingum í kvöld.
Gurley er 190 sm á hæð og lék fyrr í vetur með liði Moncton Miracles í Kanada en hann hefur áður spilað í Ungverjalandi, Ísrael og Frakklandi. Þjálfari Tindastóls, Jou Costa, þekkir ágætlega til kappans og vonast Tindastólsmenn til að hann styrki hópinn verulega en hann getur spilað sem ás, tvistur eða þristur, að sögn Stefáns Jónssonar formanns körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
Ljóst er að Tindastólsmenn mega ekki tefla þeim Dempsey og Gurley fram samtímis þannig að þegar annar spilar mun hinn sitja á bekknum. Bókhaldið þarf því að vera í lagi hjá Stólunum á næstunni.
Sem fyrr segir verður spilað í Síkinu í kvöld þegar Njarðvíkingar mæta til leiks (svo lengi sem veður leyfir). Stuðningsmenn Tindastóls eru hvattir til að fjölmenna á leikinn og ekki ólíklegt að boðið verði upp á annan og betri körfubolta.
*** UPPFÆRÐ FRÉTT ***
Leik Tindastóls og Njarðvíkur hefur verið frestað vegna slæms veðurútlits. Ekki hefur verið ákveðið hvenær leikurinn mun fara fram.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.