Stöndum með Blönduósi | Anna Lára Jónsdóttir skrifar

Anna Lára Jónsdóttir. AÐSEND MYND
Anna Lára Jónsdóttir. AÐSEND MYND

Það voru alvarleg tíðindi sem bárust út atvinnulífi Blönduós og nærsveita fyrir helgi þar sem Kjarnafæði Norðlenska tilkynnti að ekki yrði slátrað á Blönduósi næsta haust og að 23 af 28 starfsmönnum fyrirtækisins hefði verið sagt upp. Uppsagnirnar eru mikið högg fyrir samfélagið. Sláturhúsið er einn stærsti vinnustaðurinn í Húnabyggð og hlutfallslega jafngildir þetta því að 3.000 manns myndu missa vinnuna í Reykjavík.

Óvissan um framtíð sláturhússins er kannski ekki ný á nálinni og má færa fyrir því rök að þessi þróun hafi verið fyrirséð. Það má líka færa fyrir því sterk rök að breytingar á búvörulögum sem samþykkt var á Alþingi í mars 2024 af síðustu ríkistjórnarflokkum sem hafa nú hafa verið dæmd ólögmætar hafi leitt til þessarar ákvörðunar fyrirtækisins. Breytingarnar fólu í sér að framleiðendafélögum var veitt undanþága frá samkeppnislögum. Það hafði þær afleiðingar að slík félög geta eða gátu stundað samráð sem áður var ólögmætt. Markmiðið var að hagræða í slátrun og vinnslu afurða bænda, svo hægt væri að tryggja bændum hærri tekjur án þess að neytendur greiddu hærra verð. Þetta hefur ekki gengið eftir. Við höfum séð verðhækkanir, sérstaklega á lambakjöti, án þess að ávinningurinn skili sér til bænda.

Stóra verkefnið framundan er að huga að nýjum atvinnutækifærum fyrir svæðið, og verja þau störf sem eru að tapast. Sá raunveruleiki sem við landsbyggðarfólk þekkjum vel er sú hætta að þegar einstaklingar missa vinnuna þar sem atvinnulíf er fábreytt leiðir það til þess að fólk flytjast frá svæðinu, ef starfstækifæri bjóðast ekki fljótt.

Taka þarf vel utan um þá einstaklinga sem standa frammi fyrir atvinnumissi og láta þau finna að okkur standi ekki á sama um velferð þeirra.

Blönduós er á lykilsvæði þegar kemur að þróun atvinnulífs á Norðurlandi vestra. Þar er að finna fjölbreytt tækifæri í landbúnaði, ferðaþjónustu, nýsköpun og þjónustu svo fátt eitt sé nefnt. Það er brýnt að sveitarfélagið og íbúar þess, fái stuðning þingmanna og opinberra stofnana til að koma framfaraverkefnum í farveg. Ég skora á fyrirtækið, Kjarnafæði Norðlenska, að vinna með heimamönnum að frekari atvinnuþróun og koma þeim mikla húsakosti sem SAH hefur til umráða undir nýja starfsemi, samfélaginu til heilla.

Arna Lára Jónsdóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir