Fátækara samfélag án félagsheimilisins okkar

Skagafjörður. MYND: ÓAB
Skagafjörður. MYND: ÓAB

Líkt og Feykir greindi frá í síðustu viku þá ákvað byggðarráð Skagafjarðar að félagsheimilin Skagasel og Félagsheimilið í Rípurhreppi yrðu sett á sölu. Ekki eru allir sáttir við þá ákvörðun og nú hafa Íbúasamtök Hegraness sent opið bréf til meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar og Byggðalistans þar sem skorað er á meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar að draga tafarlaust til baka áform um sölu Félagsheimilis Rípurhrepps og hefja raunverulegar viðræður við íbúana um framtíð hússins.

Þrír fulltrúar skipa byggðarráð en það eru Gísli Sigurðsson (D) formaður, Einar Eðvald Einarsson (B) varaformaður og Jóhanna Ey Harðardóttir (L) aðalmaður. Álfhildur Leifsdóttir (V) er hins vegar áheyrnarfulltrúi og hefur ekki atkvæðisrétt í byggðarráði.

Bréf Íbúasamtaka Hegraness er hér að neðan:

Sveitarstjórn Skagafjarðar

Nú hefur komið í ljós að vilji meirihlutans og Byggðalistans er að selja eigi flest félagsheimili Skagafjarðar utan við Miðgarð og Höfðaborg, skv. upplýsingum starfsmanns sveitarfélagsins og upplýsinga sem samþykktar hafa verið af Byggðaráði sveitarfélagsins. Hinsvegar er enn á áætlun að byggja nýtt Menningarhús á Sauðárkróki fyrir mörg hundruð milljónir kr. sem greiddar verða af skattgreiðendum Sveitarfélagsins.

Félagsheimili Rípurhrepps var byggt á árunum 1968–1970 og var fjármagnað af sveitasjóði Rípurhrepps, auk þess sem íbúar lögðu til sjálfboðavinnu við byggingu hússins. Kvenfélagskonur fjármögnuðu innviði hússins með ýmsum ráðum, meðal annars með því að rækta kartöflur í svokölluðum „kvenfélagskartöflugarði“ og selja þær á haustin. Tekjur af þeirri sölu voru notaðar til kaupa á húsbúnaði og borðbúnaði í húsið.

Við sameiningu sveitarfélaga í Skagafirði árið 1998 gekk Félagsheimilið, eins og önnur félagsheimili, til sameinaðs sveitarfélags. Þá lagði Rípurhreppur með sér dágóða upphæð í sameinaðan sveitasjóð. Á þeim tíma hafði fyrrum sveitarstjórnarfólk í Rípurhreppi á orði að góða stöðu sveitasjóðsins mætti nýta til að reka félagsheimilið og halda því við. Þannig hefur húsið ekki verið baggi á sveitarfélaginu eftir sameiningu, ef gengið er út frá því sem sagt var á sínum tíma.

Síðasta sumar kynnti meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar áform sín um að selja nokkur af félagsheimilum sveitarfélagsins. Íbúum var boðið til fundar þar sem sveitarstjórnin sagðist vilja heyra sjónarmið þeirra og fá hugmyndir að breyttum rekstri félagsheimilanna í þágu íbúa.

Fundurinn með íbúum Hegraness var fjölmennur, og skýr vilji kom fram: Íbúar vildu ekki að Félagsheimilið yrði selt, enda var það byggt fyrir samfélagið og á að vera í þeirra þágu áfram. Þar var lögð fram sú tillaga að stofnuð yrðu íbúasamtök sem tækju að sér rekstur hússins, þannig að sveitarfélagið bæri ekki lengur kostnað af því.

Fulltrúar íbúa Hegraness áttu í kjölfarið samtöl við sveitarfélagið til að ræða útfærslu þessa fyrirkomulags. Þrátt fyrir orð sveitarstjórnar um að hlusta á íbúana skiluðu þær viðræður engu. Byggðaráð sagðist ætla að skoða málið og leita lausna – en síðan hafa íbúar ekkert heyrt. Þess í stað var án samráðs við íbúa ákveðið á fundi byggðaráðs Skagafjarðar 25. febrúar að setja Félagsheimilið á opinn sölu­markað.

Þessi ákvörðun er svik við samfélagið, sem hefur lagt sig fram um að fá áheyrn, sett fram raunhæfar lausnir og lýst sig reiðubúna til að taka kostnað við rekstur og viðhald hússins úr eigin vasa.

Við krefjumst svara:

Við skorum á sveitarstjórn að svara eftirfarandi spurningum:
1. Til hvers var haldinn fundur með íbúum Hegraness um framtíð Félagsheimilisins, ef aldrei stóð til að hlusta á sjónarmið þeirra?
2. Er það stefna sveitarstjórnar að menningarlíf í Skagafirði eigi aðeins að vera á þremur stærstu þéttbýlisstöðunum?
3. Telur meirihluti sveitarstjórnar að íbúar dreifðari byggða í Skagafirði séu minna virði þegar kemur að úthlutun fjármuna til menningarmála?
4. Af hverju er ekki hægt að gera langtímaleigusamning við íbúasamtökin um rekstur og viðhald hússins, ef ekki er vilji til að afhenda þeim eignina með stjórnsýslulega lögmætum hætti?

Við skorum á meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar að draga tafarlaust til baka áform um sölu Félagsheimilis Rípurhrepps og hefja raunverulegar viðræður við íbúana um framtíð hússins. Þær viðræður þurfa að fara fram af heilindum og með virðingu fyrir hagsmunum samfélagsins í Hegranesi.

Íbúasamtök Hegraness

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir