Englar Skagafjarðar – vertu engill! | Árni Björn Björnsson skrifar
Ég hef búið í Skagafirði í að verða 18 ár. Við fluttum frá Grindavík, ég og Skagfirðingurinn minn með gríslingana okkar fimm, á Hofsós árið 2007. Fyrsta árið áttum við rúmlega 10% af börnunum í grunnskólanum. Okkur þótti dásæmlegt að búa á Hofsósi, samfélagið þar tók vægast sagt vel á móti okkur. Ári eftir að við komum í Skagafjörðinn blessaði Haarde Ísland og róður fjölskyldunar þyngdist verulega. Það var þá sem ég varð fyrst var við skagfirsku englana sem mig langar aðeins að tala um.
Englar fram að þessu voru í mínum huga eins og myndirnar sem maður fékk í sunnudagsskólanum í gamla-gamla-gamla daga í Grindavík – ljósibornar dulúðlegar verur.
Skagfirsku englarnir sem ég tala um hér voru ekki með vængi og það lýstist ekki upp svæðið þegar þeir birtust, líkt og á sunnudagsskóla myndunum fallegu. Nei, það eru enn fallegri myndir sem hafa brennt sig inn í minnið mitt. Þetta voru nágrannarnir sem stigu fram þegar fjölskyldan stóra var í ólgusjó og breyttust í engla og mig langar að nefna hér nokkra.
Guðný, kaupfélagsstjórinn minn, en án Kaupfélagsins hefði ég fyrir það fyrsta ekki laðast að Hofsósi eins og ég gerði, enda alinn upp í Báru-sjoppu í Grindavík og vanur marrinu í kælunum og endalausri traffík sveitunga minna. Þar var borð líkt og heima í Grindavík þar sem ég sat löngum stundum og fékk að tala við alla sem komu inn – alveg dásamlegt. Skipti þá engu máli hvort það var Jói Páls, Þorbjörn í Enni eða Ívar Breki vinur minn 4 ára, allir tiltu sér og spjölluðu. Satt best að segja þá átti nákvæmlega þetta stóran þátt í að ég vildi flytja á Hofsós því svona voru alltaf móttökunar og ég vildi að börnin mín fengju að alast upp í svona umhverfi. Aftur að Guðnýu sem reis upp og studdi við bakið á okkur. Því mun ég aldrei gleyma, ekkert frekar en Jóa Páls sem hengdi saltfiskpoka á húninn hjá okkur og fór sérstaklega á sjó til að veiða fisk fyrir okkur þega við tókum við Sólvík. Dídí fyrir að taka skrefið og treysta okkur fyrir Sólvíkinni sinni sem gerði okkur kleift að rétta heldur betur úr kútnum aftur. Lilli sjómaður sem bar líka í okkur fisk. Svo er það hún Inga mín – Inga á Krossi. Ég held að sá engill hafi ættleitt mig, svei mér þá, hún á hjartað í mér.
Ég gæti svo sannarlega nefnt fleirri en þegar ég lít til baka þá voru allir íbúar Hofsós svolítið með okkur í fanginu. Viðmótið, brosin – maður lifandi – oft þarf ekki meira en það. Ég mun heldur aldrei gleyma fyrsta skólaballinu. Foreldrar og born, öll á dansgólfinu í syngjandi sveiflu enda enginn annar en Sveiflukóngurinn að spila fyrir dansi. Hr. Geirmundur Valtýrs, þar er einn engillin í viðbót. Hard Wok hefði ekki opnað ef ekki væri fyrir hann en akkurat þá stóð valið á milli að flytja með hersinguna til Noregs eða að flytja frá Hofsósi inn á Krókinn góða. Takk, takk, takk!
Englar Skagafjarðar
Mig langar að sjá hér í firðinum fagra eins konar englanet – Engla Skagafjarðar. Englar Skagafjarðar væri breið fylking fólks/engla sem til dæmis mundi leggja inn á reikning félagsins 100-500-1000 kr á mann mánaðarlega sem gæti verið sjálfkrafa tekið af reikningi viðkomandi, upphæð sem engillinn tæki ekki eftir en gæti gert kraftaverk fyrir nágranna okkar.
Félagið mundi svo í samstarfi við t.d. kirkjuna okkar nota sjóðinn til að styrkja eða styðja við nágranna okkar sem eru að glíma við brekkur lífsins.
Ég er búinn að vera með þetta í kollinum í svolítið langan tíma og hér er það komið út í kosmósið og verandi orðinn Skagfirðingur þá vona ég svo sannarlega að hægt væri að setja upp svona net í einhverju formi.
Kveðja,
Árni á Wok
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.