Nú mega krakkar undir 13 ára ekki nota rafmagnshlaupahjól

Sérstakar reglur um smáfarartæki voru lögfestar þegar Alþingi samþykkti í lok júní frumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um breytingar á umferðarlögum. Nýju reglurnar hafa nú þegar tekið gildi og er markmiðið að auka umferðaröryggi smáfarartækja án þess að standa í vegi fyrir frekari framþróun fjölbreyttari ferðamáta. „Skýrari lagarammi um rafmagnshlaupahjól er skref í áttina að því að aðlaga umferðarlögin að nýjum tímum, tímum þar sem vaxandi hluti fólks kýs aðrar lausnir en einkabílinn til að komast leiðar sinnar,” segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.

Eitt af þeim farartækjum sem flokkast undir smáfarartæki eru rafmagnshlaupahjól sem hafa verið geysilega vinsæl síðustu ár. Allur aldur hefur notað þessi faratæki og má segja að þau hafi veitt ungum krökkum nokkurs konar frelsi þegar kemur að því að fara lengri vegalengdir hvort sem það er á milli æfingastaða eða vina. Þau hafa svo eflaust létt svolítið á heimilishaldinu því foreldrar hafa kannski sloppið við endalaust skutl hingað og þangað. Foreldrar hafa því borið mikla ábyrgð á því að passa upp á að krakkar séu að nota hjólin rétt því engar reglur hafa verið settar fyrr en nú nema þær reglur sem framleiðandinn hefur tekið fram. Ein af nýju reglunum er svolítið umdeild því hún bannar krökkum undir 13 ára að nota svona fararskjóta en krakkar allt niður í níu ára hafa verið að notast við svona hjól. Nú er spurning hvort lögreglan hafi tíma til að fylgjast með og stoppa alla þessa ungu krakka sem eru og hafa verið ólögleg síðan 23. júní. 

Hér fyrir neðan má skoða reglurnar sem gilda um smáfarartæki í dag.

Rafmagnshlaupahjóli má

  • aka á hjólastíg, gangstétt og göngustígum.

  • aka yfir götu og gangbraut, ef hægt er vel á sér.

  • ekki aka á götu eða akbraut nema hámarkshraði sé 30 km/klst eða lægri.

Virða þarf almenn umferðarlög

  • stoppa þarf á rauðu ljósi.

  • leggja rafmagnshjólinu svo það hindri ekki för vegfarenda, valdi slysahættu eða óþægindum.

  • ekki leggja á miðri gangstétt, stígum, við rampa, gönguþveranir eða fyrir inngöngum húsa.

Ökumenn á rafmagnshlaupahjóli

  • skulu hafa náð 13 ára aldri. Að auki skal ávallt fylgja aldursviðmiðum framleiðenda hjóla og aldurstakmörkum rafhlaupahjólaleiga.

  • mega ekki nota hjól eftir að hafa neytt áfengis eða vímuefna.

  • lúta að sömu reglum og ökumenn reiðhjóla varðandi öryggisbúnað.

  • mega ekki nota snjalltæki eða farsíma við akstur.

  • sem eru undir 16 ára aldri þurfa alltaf að nota hjálm.

Mælt er með að allir ökumenn á rafmagnshlaupahjólum noti hjálm öryggis vegna, óháð aldri og fari eftir leiðbeiningum framleiðanda aldursmörk og notkun rafmagnshlaupahjóla.

Rafmagnshlaupahjól

  • þarf að hafa öflugt hvítt ljós að framan og rautt að aftan.

  • þarf að hafa kveikt á ljósum þegar dimmir.

  • þarf að vera með endurskin á hjólinu, bæði að framan og aftan.

  • má samkvæmt lögum, ekki breyta til að komast hraðar en 25 kílómetra á klukkustund.

Engin vátryggingarskylda er á rafmagnshlaupahjólum en eigendur eru hvattir til að leita ráða hjá tryggingafélögum varðandi ábyrgðartryggingar.

Sektir fyrir brot á reglum um rafmagnshlaupahjól

  • ekki má nota hjólin undir áhrifum áfengis og má búast við sektum ef áfengismagn í blóði er yfir 0,5 prómill.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir