Tímalaus klassík í Bifröst

Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir leikstjóri. MYND GG
Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir leikstjóri. MYND GG

Leikfélag Sauðárkróks frumsýndi í gær þriðjudaginn 15. október, Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur, í leikstjórn Sigurlaugar Vordísar Eysteinsdóttur en tónlistin í verkinu er eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson. Ávaxtakarfan er orðin að tímalausri klassík á Íslandi og gaman frá því að segja að í ár eru 20 ár síðan Leikfélag Sauðárkróks setti Ávaxtakörfuna á svið.

Sögusviðið er umtöluð karfa og persónur leikritsins ýmiss konar ávextir sem þar búa. Maja jarðarber, íbúi körfunnar, fær heldur betur að finna fyrir hinum ávöxtunum þangað til Gedda gulrót lendir óvart í körfunni, þá snúast ávextirnir gegn henni af því hún er grænmeti. Ávaxtakarfan tekur á mikilvægum málefnum, einelti og fordómum sem á alltaf erindi við alla. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Sigurlaugu Vordísi leikstjóra verksins.

Hvernig hafa æfingar gengið? - Æfingarnar hafa gengið þrusu vel, leikhópurinn bæði á sviði og á bak við tjöldin eru náttúrulega hæfileikabombur og leikfélagið er svakalega ríkt af stórkostlegu fólki sem alltaf er til í að vinna þrotlausa sjálfboðavinnu til að skapa leikhúsmenningu hérna á Sauðárkróki. Svo er þetta svo gefandi og skemmtilegur félagsskapur.

Komust færri að en vildu í sýninguna? – Já, því miður þá voru einungis níu hlutverk á sviði og helmingi fleiri sem hefðu viljað spreyta sig í þeim hlutverkum. En hópurinn er þéttur og allir fengu hlutverk í að skapa heildarmynd sýningarinnar, enda þarf mjög skapandi hug og margar hæfileikaríkar hendur til að búa til leikhús.

Er leikhúsfjölskyldan náin fjölskylda? - Þegar æfingatímabil hefst þá verður maður sjómaður í níu vikna túr og á þessum tíma skapast óbilandi traust, vinátta, samkennd og órjúfanleg tengsl. Allur tilfinningaskali hvers og eins fær sitt pláss, allt sjálfsnámið fær sinn tíma, allir fá rými til sköpunar og Bifröst verður heimili stórfjölskyldu með eitt salerni og einungis sameiginleg rými. Fjölskyldan er í ferðalagi og þarf að vinna náið saman til að upplifa ævintýrin og töfrana.

Eru allir að verða peppaðir fyrir frumsýningu? - Já, við erum öll búin að vera mega peppuð frá fyrsta samlestri, hlægjum mikið á æfingum og getum ekki beðið eftir að fara að sýna.

Hvað hefur verið erfiðast? - Það eru alltaf ákveðnar hindranir sem þarf að finna lausnir á við hverja uppsetningu, það var í raun ekkert erfitt þar sem allir eru svo jákvæðir og lausnamiðaðir. En að mínu mati hefur mesta áskorunin við þessa uppsetningu verið hversu svakalega mikið við erum tengd fyrir utan svið. Móðir og börn og svo tvenn pör af systkinum. Að skapa jafnvægið á samskiptaformi og skilja blóðtengslin eftir út á götu hefur verið áskorun fyrir okkur en við unnum mjög meðvitað með það í gegnum ferlið.

Er Ávaxtakarfan tímalaus klassík? - Já, Ávaxtakarfan er heldur betur tímalaus klassík, leikritið hefur svo magnaðan boðskap sem á alltaf við og er settur í svo skemmtilega myndrænt form fyrir börn og tónlistin alveg geggjuð. Það ætti klárlega að þýða þetta leikrit og koma því á fjalir í London. Hér á Íslandi er Ávaxtakarfan komin á sama stall og Dýrin í Hálsaskógi, Lína Langsokkur og Kardemommubærinn.

Hvað finnst þér skemmtilegast við að vera leikstjóri í svona sýningu? - Alla malla... það er svo ótal, ótal margt sem er skemmtilegast... Ég hef afar sterka myndræna hugsun, það er náttúrulega ótrúlegt að fá að upplifa það að lýsa t.d. myndunum úr huga mínum fyrir smiðum, búningahönnuðum, ljósahönnuðum sem síðan finna tæknina og lausnirnar til að láta þessar myndir verða að veruleika. Að skapa með öðru fólki er bara eitt það skemmtilegasta sem hægt er að gera að mínu mati. Að fá að leiða ferðalag fólks í sköpun eru forréttindi, sjá hvern og einn eflast og þroskast, sjá samvinnuna og gleðina, sjá hvern og einn öðlast frelsið til að fara úr þægindarammanum og setja sál sína í sköpunarverkið. Hvert ferðalag er bara svo einstakt og skemmtilegt.

Sigurlaug Vordís segir að hennar persónulega áskorun sé alltaf að sleppa tökunum. - Ég treysti hópnum og ferlinu fullkomlega en hver leiksýning verður eins og barnið manns og á frumsýningardag er barnið allt í einu orðið fullorðið og er að fljúga úr hreiðrinu. Svo fallegt, svo yndislegt, svo mikið stolt og hamingja en samt svolítið erfitt fyrir mömmuhjartað að fylgjast svo bara með á hliðarlínunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir