Vaxtaverkir | Leiðari 38. tölublaðs Feykis

Það getur verið ágætis sport að setja saman sæmilega vísu. Kannski hefði einhver haldið að nú á tímum samfélagsmiðla þá dytti þessi gamla hugarleikfimi úr tísku en það virðist nú vera öðru nær. Margir hafa gaman af því að reyna sig við þetta púsl og birta sperrtir fram-leiðslu sína á Facebook. En ef menn eru ekki með leikreglurnar á hreinu þá geta þeir fengið yfir sig skammir eða umvandanir frá lærðum í faginu.

Stundum mættu þeir sem kunna til verka sýna nýgræðingum í sportinu örlítið meiri tillitssemi og lang-lundargeð og sömuleiðis mættu þeir sem eru snupraðir á stundum vera minna hörundsárir og stuðla að bætingu – því eins og Héddi Sig vinur minn sagði gjarnan: „Æfingin skapar meistarann.“ Og hafði þessi sannindi örugglega frá pabba sínum, Sigga Ágústs raf-veitustjóra.

Á Facebook eiga vísnasmiðir heimili undir hatti Boðnarmjaðar. Það eru jafnan gerðar kröfur til þeirra sem leggja inn vísur í þann gleðibanka og engin miskunn ef farið er út fyrir rammann. Þar eru sumir stórgóðir og bráð-snjallir að setja saman alls konar vísur, limrur, sonnettur og hvað þetta nú allt heitir og geta sett saman beittan og hnyttin kveðskap án þess að meiða. Sumir eru í náttúrulýsingumeða gríni og svo eru aðrir í pólitík og hitta mest í mark hjá sjálfum sér.

Stórtíðindi síðustu viku voru tvímælalaust lækkun vaxta hjá Seðlabanka Íslands sem telja má til meiri háttar fagn-aðarefna þjóðarinnar á þessari öld, þó svo flestir – og Seðlabankastjórinn frá Hólum þar á meðal – teldu lækk-unina, 0,25%, aumingjalega. En mjór er mikils vísir sagði einhver einhversstaðar.

Inni á Boðnarmiði mátti sjá allnokkra félaga tækla þessar fréttir og undirritaður fann sig meira að segja knúinn til að taka þátt í leiknum, þó hann hafi látið vera að setja meistaraverkið inn á Boðnarmjöð. Vísan fór því bara inn á einkavegginn á Facebook, enda vísnagerð hans frekar verið til heimabrúks og sjaldan hitt í mark hjá sprenglærðum gagnrýnendum. Ekki flaut nú vísan nógu lipurlega í fyrstu atrennu en eftir ágæta ábendingu frá meistara Gunnari Sandholt var orðaröðin í fyrstu línu löguð. Og af því að margir eru vísnasmiðir ánægðir með eigin hugverk þá fær vísan að birtast í Feyki ... enda efnið fréttnæmt.

   Margur vill við krónu-drottinn deila,
   dimmalimmalimm,
   niður færir vexti nú um heila
   0,25.

Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri og hagyrðing...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir