Framboð og eftirspurn – sex vikur til kosninga

Nú eru rétt um sex vikur þar til landsmönnum gefst kostur á kjósa til Alþingis á ný í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra taldi að lengra yrði ekki komist í samstarfi Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Forseti Íslands féllst á lausnarbeiðni hans í vikunni og hefur verið ákveðið að Alþingiskosningar verði 30. nóvember. Flokkarnir eru því komnir á fullt í að setja saman lista og gera sig klára í baráttuna um Ísland.

Teitur og Óli vilja efsta sæti hjá Sjöllum

Ljóst er að einhverjar sviptingar verða á listunum í Norðvesturkjördæmi og til að mynda hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokks í kjördæminu, ákveðið að færa sig um set og stefnir á annað sæti í Kraganum þar sem Bjarni mun eflaust leiða listann. Vitað er að bæði Teitur Björn Einarsson og Ólafur Adolfsson stefna á efsta sæti listans í Norðvesturkjördæmi. Teitur er tengdasonur Gísla Gunnarssonar vígslubiskups á Hólum en hann skipaði þriðja sæti D-lista fyrir síðustu kosningar en tók síðan sæti á þingi í kjölfar þess að Haraldur Benediktsson hætti og gerðist bæjarstjóri á Akranesi. Lyfjafræðinginn Óla Adda kannast margir við en hann býr á Akranesi en Króksarar muna eflaust eftir honum í vörn Tindastóls á síðustu öld og síðan með liði ÍA og íslenska landsliðinu. Samkvæmt upplýsingum Feykis velja Sjálfstæðismenn sinn lista á kjördæmisþingi nk. sunnudag en þar verður kosið um sæti 1-4, eitt í einu, og síðan kosið um tillögu uppstillingarnefndar um sæti 5-14.

Ugla Stefanía í framboð hjá Pírötum

Þá hefur Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir frá Stóra-Búrfelli í Austur-Húnavatnssýslu ákveðið að gefa kost á sér á lista Pírata í kjördæminu en hún steig í haust inn í framkvæmdastjórn Pírata eftir að hafa hlotið flest atkvæði í kosningu á nýrri stjórn. Ugla er kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks. Hún tjáði Feyki að fleiri frambjóðendur hafi tilkynnt um framboð í hópi Pírata en hún sé sú eina sem hafi tilkynnt að hún stefni á oddvitasætið. Píratar verða með prófkjör og búið er að opna fyrir framboð. „Kosning fer fram á sunnudag og klárast svo á þriðjudag,“ segir Ugla.

Stefán Vagn vill halda áfram í efsta sæti Framsóknar

Aðspurður segist Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Norðvesturkjördæmis og Framsóknar, sækjast eftir efsta sæti á lista Framsóknarflokksins en þar á bæ hyggjast menn ákveða aðferð við val á listann á kjördæmisþingi um helgina. Stefán er að byggja sér einbýlishús á Króknum og þegar Feykir spurði hvort kosningar nú setji strik í reikninginn hjá húsbyggjandanum svaraði hann léttur að svo væri ekki – hann væri með menn í því verki.

Sigurjón til í slaginn með Flokki fólksins

Sigurjón Þórðarson, Króksari og forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, skipaði sjötta sæti á lista Flokks fólksins fyrir síðustu kosningar. Hann hefur engu að síður komið inn sem varamaður í einhver skipti frá síðustu kosningum og þegar Feykir spurði hann hvort hann gæfi kost á sér kvað hann svo vera. „Ég hef gefið kost á mér í hvaða sæti sem er fyrir Flokk fólksins en það á eftir að koma í ljós hvaða sæti það verður og í hvaða kjördæmi.“

Álfhildur reiðubúin í að íhuga framboð hjá Vg

Feykir spurði Álfhildi Leifsdóttur, oddvita Vinstri grænna og óháðra í sveitarstjórn Skagafjarðar, hvort hún hyggðist bjóða fram krafta sína fyrir Vg í Norðvesturkjördæmi. „Nú ber allt heldur betur brátt að. Ég hef gríðarlegan áhuga á sveitarstjórnarmálum og okkar heimabyggð og er afar þakklát fyrir að vera treyst fyrir þeim verkefnum. En nú þurfa allir að leggjast á árarnar og hlaupa hratt í ljósi stöðunnar. Verði ég beðin þá kem ég til með að íhuga það vandlega,“ svaraði Álfhildur en það verður í valdi uppstillingarnefndar að setja saman lista Vinstri grænna.

Stutt er síðan stjórnarsamstarfið var blásið af og eflaust liggja einhverjir enn undir feldi og velta fyrir sér næstu skrefum á sínum pólitíska ferli. Ekki náði Feykir í skottið á öllum þeim sem reynt var að hafa samband við vegna umfjöllunarinnar en það næst eflaust í þá fyrr en síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir