ÍR-ingar lagðir í stífbónað parket í Breiðholtinu

Það er gaman að halda með Stólunum ... oftast. MYND: SIGURÐUR INGI
Það er gaman að halda með Stólunum ... oftast. MYND: SIGURÐUR INGI

Karlalið Tindastóls spilaði sinn annan leik í Bónus-deildinni í gær og nældi í góðan sigur eftir að hafa sýnt sínar verstu og bestu hliðar. Fyrri hálfleikur, og þá sérstaklega annar leikhluti, var kennslubókardæmi um hvernig ekki á að spila vörn á meðan liðið spilaði fína vörn í síðari hálfleik og þá ekki hvað síst framan af fjórða leikhluta þar sem liðið náði 18-0 kafla sem í raun skóp sigurinn. Lokatölur 82-93.

Stuðningsmenn Stólanna voru bjartsýnir fyrir mót enda var frammistaða liðsins fín í leikjum undirbúningstímabilsins. Það kom því mörgum á óvart hvað leikur liðsins var flatur í fyrsta leik gegn KR, sem tapaðist í Síkinu, og þessi leikur gegn ÍR í Skógarseli var meira af því sama fram í hálfleik. Heimamenn komust í 7-0 áður en Stólarnir settu sín fyrstu stig og komu sér síðan inn í leikinn, Arnar jafnaði leikinn með þristi, 9-9. ÍR leiddi 18-15 að loknum fyrsta leikhluta. Drungilas gerði fjögur fyrstu stig annars leikhluta en síðan dottuðu strákarnir í nokkrar mínútu og heimamenn gengu á lagið, náðu 11-0 kafla. Tveir þristar frá Geks héldu Stólunum á lífi. Þegar mínúta var til hálfleiks var lið ÍR komið með 17 stiga forystu en fimm stig frá Basile í einni og sömu sókninni reyndust mikilvæg og staðan 43-32 í hálfleik.

Benni hefur sennilega stungið strákunum sínum í hleðslu í hálfleik því allt annar bragur var á mönnum í síðari hálfleik þó sóknarleikurinn væri ekki alltaf til útflutnings, leikur liðsins ansi villtur á köflum. Hálfleikurinn byrjaði reyndar á því að Tómas Orri smellti í þrist fyrir ÍR-liðið og kætti hressa stuðningsmenn liðsins. Drungilas var ekkert í stuði fyrir svona kvöld og setti niður þrjá tvista í röð og 9-0 kafli Stólanna opnaði leikinn upp á gátt. Eftir að hafa leikið sér að því að skora í öðrum leikhluta voru ÍR-ingar farnir að taka vond skot og Stólarnir komnir upp á gamla góða tábergið í vörninni. Sadio, sem átti flottan leik í gær, jafnaði leikinn með þristi, 58-58, og Basile kom Stólunum yfir af vítalínunni stuttu síðar, staðan 61-63. Það er gömul tugga að körfubolti er leikur áhlaupa og heimamenn áttu síðasta áhlaup þriðja leikhluta og voru yfir fyrir lokaátökin, 70-67.

Liðin gerðu sitt hvort stigið af vítalínunni í upphafi fjórða leikhluta en síðan tóku gestirnir öll völd. Með flottum varnarleik og röggsömum sóknarleik náðu Stólarnir 18-0 kafla. Hann hófst með laglegum þristi frá Pétri og má eiginlega segja að næstu 6-7 mínúturnar voru ÍR-ingar eiginlega aldrei líklegir til að skora, fengu engan tíma til að stilla miðið og Stólarnir í andlitinu á þeim. Íleggja frá Sadio þegar tvær og hálf mínúta voru til leiksloka jók muninn í 15 stig, 71-86, og þá virtust gestirnir telja að leik væri lokið. Það er sjaldnast góð ákvörðun að hætta áður en leik er lokið og heimamenn minnkuðu muninn í átta stig á örskömmum tíma og fengu tvö vítaskot þegar 50 sekúndur voru. Benni tók þá leikhlé og dró fram bæði hárblásarann og hátalaraboxið og þrumaði yfir sína menn. Það vakti mannskapinn og þrátt fyrir að ÍR minnkaði muninn tvívegis í sex stig á lokamínútunni þá var tíminn ekki nægur fyrir á og Stólarnir sigldu stigunum í hús af vítalínunni.

Benna finnst hann vera að þjálfa tvö lið

Sadio var atkvæðamestur Stólanna með 28 stig og átta fráköst, Basile var með 17 stig og sjö stoðsendingar, Drungilas gerði 16 stig, Arnar og Geks tíu hvor, Pétur sjö og Giannis fimm stig.

Í viðtali Körfunnar við Benna þjálfara að leik loknum kvaðst hann hafa blendnar tilfinningar að leik loknum; liðið hafi verið gott í seinni hálfleik en ekki gott í þeim fyrri. „Mér líður eins og ég sé að þjálfa tvö lið,“ sagði þjálfarinn. Vildi hann meina að það hefði vantað einkenni Tindastóls: „Grjótharðir, að láta finna fyrir okkur, ná góðum stoppum, refsa með hraðupphlaupum, stjórna tempóinu, pínu villtir, menn með hnefa á lofti og stúkuna með sér. Þetta er bara svona mójó sem við þurfum að leita að og ég vil að Tindastólsliðið finni og verði líkara sjálfu sér því við erum með hörkulið þegar við náum þessu.“

Næsti leikur er á fimmtudaginn en þá kemur lið Hauka í heimsókn í Síkið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir