Vindmyllur | Steinar Skarphéðinsson skrifar

Steinar Skarphéðinsson.MYND AÐSEND
Steinar Skarphéðinsson.MYND AÐSEND

Nýlega birtist í Feyki grein eftir Bjarna Jónsson alþingismann og varaformann utanríkismálanefndar Alþingis. Bjarni fjallar um vindmyllur og vindmyllugarða sem koma til með að koma í andlit fólks. Ég get fallist á það að það verði að gæta mikils hófs varðandi uppsetningu á vindmyllum.

Á sama tíma er hann að reyna að setja fótinn fyrir það að við getum reist vatnsaflsvirkjanir sem margar eru hin fegurstu mannvirki og hafa auk rafmagnsframleiðslu skapað ýmsa aðra möguleika. Þar má nefna Kárahnjúkavirkjun, stórfelldar vegaframkvæmdir, aukna ferðaþjónustu (Stuðlagil) og laxveiði (Jökulsá) sem er alveg nýtt veiðisvæði.

Nýlega stóð Bjarni að því að Skatastaðavirkjun var færð flokki aftar og sex miljarðarnir á ári renna því óhindrað áfram til sjávar undir vatnabrýrnar.

Fyrirsagnir í greininni gefa svolitla innsýn í hugarheim Bjarna: Landgæðum og náttúru fórnað fyrir orkuþörf Evrópu/Ekki heimild í íslenskum lögum til lagningar sæstrengs. Hver verður flutningsmátinn?.

Bjarni spyr svo hvað á að gera við alla þessa orku – lestu ekki blöðin eða hlustar á fréttir? Hvað brennum við miklu af díselolíu til þess að halda fiskvinnslu og mjölvinnslu gangandi fyrir austan? Er ekki verið að setja upp nýjan díselþurrkara fyrir austan? Hvað með Orkubú Vestfjarða?

Samkvæmt ályktun Landsvirkjunar er talið að aukning á raforkuþörf innanlands sé um fimmtán megavött á ári til þess að fullnægja eftirspurn. Þá er orkuþörfin einnig talin hamla þróun iðnaðar og orkuskipta. Þá er ótalin sú viðbót sem stóriðjan þarfnast en sumir eru að agnúast út í stóriðjuna og álverin. Álið er mjög mikilvægur málmur, hann er léttur og sterkur og því mikið notaður í flugvélar, bíla tæki og tól og er því mikið orkusparandi og skipar því stóran sess í orkuskiptum. Við framleiðum ál með vistvænum hætti (rafmagni) og ættum að framleiða meira. Í Kína er ál framleitt í stórum orkuverum sem brenna kolum. – Búum við ekki á sömu plánetu?

Bókun 35, sem Bjarni er ekki alltof hrifinn af (er ekki ríkisstjórnin með þetta mál?), er hún ekki bara til þess að fullnægja skyldum okkar gagnvart EES sem við erum aðilar að og verðum að fullnægja? Og er ekki ESA búið að senda íslenska ríkinu áminningarbréf vegna ófullnægjandi vinnubragða?

Ég sé hvergi í Bókun 35 að það eigi að leggja sæstreng til Íslands eða Evrópusambandið geti komið hingað með streng og bara stungið í samband. Það hlýtur að þurfa eitthvað meira til.

Þá er einnig getið í ályktun að samningsaðila sé ekki gert að framselja löggjafavald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins.

Fram kemur í skýrslu starfshóps vegna innleiðingar Íslands að Bókun 35 að í ýmsum tilvikum hjálpi það fyrirtækjum og hinum almenna borgara að gæta réttar síns svo sem í tollamálum og fleiru þar sem íslensk lög stangast á við lög EES sem við erum aðilar að.

Þá kemur einnig fram í skýrslu starfshóps að norska þingið getur vikið frá þessum reglum í einstökum tilvikum eða afnumið þær með öllu. Reglan tryggi því ekki fortakslaust forgang innleiddra EES-reglna að norskum rétti. Sama ætti að gilda fyrir Ísland.

Sauðárkróki 29. september 2024.

Steinar H Skarphéðinsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir