Íþróttagarpurinn Una Karen
Una Karen Guðmundsdóttir er fædd árið 2006 og er ungur og efnilegur golfari frá Sauðárkróki. Aðal íþróttagreinin hennar er golf en hún hefur stundað alls konar íþróttir í gegnum tíðina og er öll hreyfing eitt af áhugamálunum hennar. Undanfarin ár hefur golfiðkunin hins vegar átt stóran part af hennar lífi og eru framfarirnar síðustu ár í takt við það, stórefnileg stúlka hér á ferðinni.
Una er dóttir Helgu Jónínu Guðmundsdóttur og Guðmundar Ágústs Guðmundssonar en hún á einnig tvo bræður þá Arnar Frey og tvíburabróðurinn Tómas Bjarka. Una flutti síðasta haust í Kópavoginn til að stunda nám en einnig til að geta stundað sína íþrótt af meira kappi því þar er æfingaaðstaðan töluvert betri til golfiðkunar yfir vetrartímann.
Helstu íþróttaafrek í golfi? Ég myndi segja að helstu afrekin mín í golfi séu að vera í 2. sæti í meistaramót Golfklúbbs Skagafjarðar, 7. sæti í Íslandsmóti unglinga í höggleik og síðan gekk mér vel í Íslandsmóti golfklúbba seinasta sumar. Ég tapaði einum leik, jafnaði einn og vann þrjá.
Hvað er skemmtilegasta augnablikið í golfinu? Skemmtilegasta augnablikið gerðist í sveitakeppninni (Íslandsmóti golfklúbba) seinasta sumar. Ég var að keppa með GSS og í þessum leik vorum við að spila á móti Nesklúbbnum. Allir hinir leikirnir voru búnir þannig að það var allt liðið og aðstandendur að fylgjast með mér. Ég setti niður langt pútt á 18. fyrir framan alla og vann þar með leikinn minn.
Neyðarlegasta atvikið? Neyðarlegasta atvik sem ég hef lent í í golfi gerðist á golfvellinum í Mosfellsbæ. Ég var að spila með fjölskyldunni minni og við vorum á 6. holu á Hlíðavelli. Ég er ekki alveg að fylgjast nógu vel með kerrunni minni þannig að ég tek ekki eftir því þegar hún byrjar að renna frá mér og í átt að vatninu sem er fyrir framan flötina. Mamma hins vegar gerir það og sleppir kerrunni sinni til að stoppa mína. Það fór þannig að mamma náði ekki kerrunni minni og þær fóru báðar í vatnið, síminn hennar mömmu í settinu hennar. Hún varð alveg brjáluð, skiljanlega og þegar við vorum búin að veiða allt sem við gátum upp úr vatninu þá fórum við bara heim í staðinn fyrir að reyna að klára hringinn.
Ertu með einhverja sérvisku eða hjátrú? Já, ég trúi því að ef ég er að spila illa þá er nóg að breyta hárgreiðslunni minni eða hvaða fötum ég er í til þess að ég fari að spila illa. Þannig er hægt að sjá að ef ég byrjaði hring með tagl og er síðan komin með fléttu þegar þú sérð mig næst þá veistu að þetta er ekki alveg að ganga nógu vel hjá mér. Þetta er ástæðan fyrir því að stundum þegar það er kalt úti er ég bara að spila í stuttermabol, ég er þá að spila vel þannig og vil ekkert vera að skemma það.
Lífsmottó: GÆS, Ég get, ég ætla, ég skal.
Uppáhalds íþróttamaður? Nelly Korda – fyrir þá sem ekki vita hver það er þá er hún bandarískur atvinnukylfingur sem spilar á LPGA mótaröðinni en það mót hefur hún sigrað 14 sinnum og er á fyrsta sæti á heimslista kvenna í golfi. Korda sigraði, nú á dögunum, Mizuho Americas Open þrátt fyrir að spila ekki 100% á sinni getu.
Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur og hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? Ég held að ég myndi alltaf velja Tómas, bróður minn, sem andstæðing. Við myndum keppa í golfi, ég myndi lýsa þeirri rimmu sem að það væri mjög mikið keppnisskap (allavega af minni hálfu) en yfir allt mjög gaman.
Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? Helsta afrekið mitt fyrir utan golf er að flytja suður. Ég bý hjá ömmu minni og afa þannig að það er ekki eins og ég sé ein en það var samt stór ákvörðun að flytja frá fjölskyldunni minni og öllu sem ég er vön. Ég flutti til þess að geta æft golf á veturna og vera í námi sem tekur mikið tillit til íþróttaiðkunar. Þetta er búið að vera erfitt en ég er búin að aðlagast nokkuð vel og er mjög glöð og stolt af sjálfri mér fyrir að fara.
Helsta fyrirmynd í lífinu? Helsta fyrirmyndin mín í lífinu er mamma mín vegna þess að hún er frábær. Ég dáist að því hversu ákveðin hún er, allri samúðinni sem hún hefur fyrir öðru fólki og seigluna í henni. Ég er svo þakklát fyrir endalausa stuðninginn sem ég fæ frá henni og markmiðið mitt í lífinu er að vera jafn sterk og hún.
Hvernig myndirðu lýsa sjálfri þér sem leikmanni? Ég vil alltaf að það sé gaman hjá mér að spila og keppa og ég reyni að vera ekki að svekkja mig allt of mikið. Ég er alltaf að reyna að verða betri og ég geri mitt besta, ég get ekki beðið um meira en það.
Hvernig endaði síðasta sumar hjá þér í golfinu og ertu byrjuð að undirbúa þig fyrir sumarið? Ég náði flestum markmiðum sem ég setti mér fyrir seinasta sumar þannig að ég er sátt með það en mér finnst að ég hefði getað klárað sumar betur, maður er aldrei sáttur. Já ég er búin að vera að æfa í allan vetur og er búin að setja mér markmið fyrir sumarið, núna er ég bara spennt að sjá hvernig það fer.
Hvað er verið að gera þessa dagana? Ég er búin að vera að æfa á fullu í vetur og er ekkert að minnka það núna – segir Una Karen en þegar viðtalið var tekið í apríl hafði hún þegar skráð sig á fyrsta mótið úti í Svíþjóð í lok apríl og var að reyna að undirbúa sig eins og best var á kosið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.