Rabb-a-babb 95: Jón Þór
Nafn: Jón Þór Bjarnason.
Árgangur: 1961.
Búseta: Reykjavík.
Fjölskylda: Fjögur frábær börn og kærasta.
Hverra manna ertu: Sonur Elsu Jónsdóttur og Bjarna Þórs Bjarnasonar.
Starf / nám: BA í Ferðamálafræði frá Hólum / Sjálfstætt starfandi.
Bifreið: Honda CRV.
Hestöfl: Rúmlega eitt hundrað folöfl.
Hvað er í deiglunni: Spænskunámskeið, snjóbretti, kórsöngur og badminton. Senn vorar og þá bætast við línuskautar, frisbygolf og ferðalög. Svo ætti ég vera, í stað þess að vera að svara þessum spurningum, að útbúa og dreifa kynningarefni fyrir rútuna mína, en ég á 24-farþega Benz-rútu sem ég geri sjálfur út á sumrin.
Hvernig hefurðu það? Mesta furða miðað við aldur og fyrri störf. Innra jafnvægið er gott en alltaf einhver óróleiki í kroppnum sem þarf að fá reglulega útrás.
Hvernig nemandi varstu? Andskotanum ódælli held ég. Var allavega rekinn heim nokkrum sinnum, stundum fyrir sárasaklausan grallaraskap; stundum verðskuldað. Það tíðkaðist í þá daga að reka börn úr skóla og ég var svo vitlaus að finnast þetta upphefð; hafði “unnið” mér inn notalegt frí og gat sofið út. Var þá og er enn, nokkuð hvatvís. Einu sinni vorum við strákarnir að þeyta hver öðrum á kennarastól á hjólum fram og aftur gangana, þegar kennari kom óvænt útúr stofu. Hann átti fótum sínum fjör að launa á flótta undan stólnum. Í kjölfarið var ég sendur heim í viku!
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Þegar ég laumaðist úr veislunni ásamt föðurbróður mínum, sem var vopnaður ljósmyndavél, uppí risherbergið mitt á Freyjugötunni, þar sem hann myndaði mig kasta allri seðlahrúgunni uppí loft – þetta var eitthvað um hundraðþúsundkall sem sveif þarna fallega niður fyrir framan skælbrosandi andlit nýbakaðs “milljónamærings”.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Hver sagði að ég væri orðinn stór?
Hvað hræðistu mest? Að festast í viðjum vanans og hætta að upplifa eitthvað nýtt og spennandi. Svo hræðist ég líka firringu og fáfræði, sem verður skelfileg blanda þegar það er hrært saman við þjóðrembu og/eða trúarbrögð.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? Ein besta plata sem ég hef eignast er “Hinn íslenski Þursaflokkur og Caput - í Höllinni á þorra 2008”. Ég fór á þá tónleika og gleymi seint, en þar voru þessi feiknafínu lög gædd nýju lífi og stærra. Þeir sem frömdu gjörninginn eru að mínu mati tónlistartöframenn á heimsmælikvarða!
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Delilah með Tom Jones. Annars hef ég oft flaskað á því að velja mér lag sem hentar illa mínum djúpa baritón – það kemur ekki vel út, en skemmtir oft viðstöddum.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Missi meðvitað mestmegnis af því sem sýnt er í sjónvarpi, líka fréttum. Eitt er það þó sem ég reyni eftir fremsta megni að sjá, og það er hinn stórskemmtilegi spurningaþáttur Útsvar. Forðast flestallar þáttaraðir, en man þó eftir því að hafa sótt í tríólógíu Stieg Larsson.
Besta bíómyndin? Shawshank Redemption er feiknafín mynd, og önnur uppáhalds er franska myndin Intouchables. Báðar segja góða sögu og hreyfa við mér. Svo er það auðvitað sænska stórmyndin Den frusna Leoparden, en það er eina bíómyndin í fullri lengd sem ég hef unnið við.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég bý til ljómandi bragðgóðan hummus með indverskum undirtón og svo er gríska salatið mitt í uppáhaldi. Í því er auðvitað ekkert kál, heldur bara tómatar, gúrkur, rauðlaukur, feta-ostur, ólífur og ólífuolía, sítrónusafi, salt og pipar.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? Einhver rándýr hollusta. Annars fer ég oftast með minnismiða og reiðufé í verlsanir… og bruðla svo heldur í eitthvað skemmtilegt.
Hvað er í morgunmatinn? Sólskinsmusli með léttmjólk, matskeið af hörfræolíu og 4.000 ae af D-vítamíni. Nýmalað og –uppáhellt kaffi af góðum styrkleika kemur svo í kjölfarið.
Uppáhalds málsháttur? Hver er sinnar kæfu snúður?
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Allar þessar snældu klikkuðu teikningar hans Hugleiks Dagssonar tala til mín, hann er svo brjálæðislega steiktur að hann nær meira að segja að ganga fram af mér!
Hver er uppáhalds bókin þín? Mátturinn í núinu, eftir Eckhart Tolle. Hún kenndi mér að vera að fullu staddur í því augnabliki sem er að líða. Þetta er mín biblía. Tolle segir að hugurinn sé boðflenna sem lifir sjálfstæðu lífi í hausnum á okkur og hefur tilhneigingu til að mæta óboðinn í lokuð einkapartý. Hugurinn er verkfæri sem við notum til ýmissa úrlausna, en eins og gildir um slík tól eigum við að geta lagt þau frá okkur að loknu verki eða þegar við viljum taka pásu. Aðeins með þöglum huga getum við nálgast kjarnan í okkur sjálfum.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Þar sem ég er að klára Spænsku II hjá Endurmenntun H.Í., færi ég á sólríkan stað þar sem eingöngu væri töluð spænska… þarf nauðsynlega að æfa mig í að tala og hlusta meira, svo þetta festist betur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Kæru- og agaleysi, en það hefur líka sína kosti. Svo er ég hundlatur milli þess sem ég tek vinnutarnir. Annars á maður að vera umburðalyndur og æðrulaus gagnvart sjálfum sér jafnt sem öðrum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Allajafna fer annað fólk ekki í taugarnar á mér. Það lifir sínu lífi og ég mínu; það má hafa sína dutlunga og sérlund, alveg eins og ég.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? Þegar ég var gutti hélt ég um tíma með Stoke og svo Arsenal. Síðustu þrjátíu árin eru fótboltaleikir sem ég hef séð, teljandi á örfáum fingrum. En hvurslags spurning er þetta eiginlega – af hverju er ekki spurning hér um fegurstu íþrótt allra tíma: Körfubolta?
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó? Sko Heim í Búðardal hefur auðvitað verið sungið ótal ótal sinnum í partýum og útilegum, en Diskó Friskó kveikir upp meiri tjútt-kenndir í mínum kroppi. Annars er ég alæta á tónlist; djass jafnt sem danstónlist.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati? Mamma!
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Tölvu og nóg af kaffi (þetta eru óaðskiljanlegir hlutir og teljast því sem einn), koddann minn og frisby-golf disk. Tölvan er auðvitað með gerfihnattarpung og sólarsellu!
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Kameljón?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.