Svínakjötspottréttur og kladdkaka með Rolokremi
Matgæðingur vikunnar í tbl 47, 2020 var Margrét Petra Ragnarsdóttir, dóttir Dóru Ingibjargar Valgarðsdóttur og Ragnars Péturs Péturssonar. Margrét er því Króksari í húð og hár þó hún hafi tekið nokkrar pásur frá firðinum fagra í gegnum lífsævina en í dag býr hún á Hólum í Hjaltadal ásamt Sveini Rúnari Gunnarssyni og tveimur dætrum, þeim Emmu Dallilju og Viktoríu Rún.
„Svínakjötspottrétturinn hefur lengi verið í uppáhaldi og suðaði ég oft í mömmu hér áður fyrr að elda hann. Ég er mikill súkkulaðiunnandi og finnst fátt betra en að gæða mér á heitri súkkulaðiköku með ís og berjum,“ segir Margrét.
AÐALRÉTTUR
Svínakjötspottréttur
1 kg svínagúllas
1 laukur
200 g beikon
matarolía til steikingar
2 msk. karrý
1 msk. paprikuduft
4 dl vatn
300 g ananasbitar
safi af ananasinum
2 ½ dl rjómi
3 svínakjötssúputeningar
salt og pipar
sósujafnari
Aðferð: Byrjið á að skera laukinn og brúna hann í matarolíu. Bætið beikoninu við og kryddið með karrý og paprikudufti. Svínagúllasinu er svo bætt við. Ananassafanum er hellt yfir ásamt vatni og það soðið í 15 til 20 mínútur. Að lokum er rjóma og ananasbitunum bætt við. Hægt er að sleppa ananasbitunum en anassafinn er nauðsynlegur til að fá rétta bragðið fram. Bragðbætið með svínakjötkrafti, salti og pipar og þykkið sósuna með sósujafnara. Gott er að bera réttinn fram með hrísgrjónum og salati.
EFTIRRÉTTUR
Kladdkaka með Rolokremi
100 g smjör
2 egg
3 dl sykur
1½ dl hveiti
5 msk. kakó
2 tsk. vanillusykur
Hnífsoddur af salti
Aðferð: Bakarofninn er stilltur á undir- og yfirhita og hitaður í 175°C. Byrjið á að bræða smjörið. Restin af hráefninu er svo sett í skál og brædda smjörinu bætt út og hrært þar til deigið hefur blandast vel saman. Kladdkakan er bökuð til dæmis í smurðu laus-botna formi eða sílikonformi (22 – 24 sm) í 20
mínútur. Kökunni er leyft að kólna í tíu mínútur.
Rolo krem:
2 pakkar af Rolo
50 g suðusúkkulaði
smá rjómi til þynningar
Aðferð: Bræðið suðusúkkulaði og Rolomolana yfir vatnsbaði. Ef þarf má þynna kremið með rjóma. Kreminu er svo hellt yfir kökuna. Gott er að bera kökuna fram með rjóma eða ís, jarðarberjum og/eða bláberjum.
Verði ykkur að góðu
Sigga sigga sigga
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.