Landsmenn hvattir til að koma sér upp viðlagakassa
Það er mikilvægt að öll heimili landsins geti komist af í að minnsta kosti 3 daga ef neyðarástand skapast. Neyðarástand getur skapast af ýmsum ástæðum og oft með stuttum eða engum fyrirvara. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að hvert og eitt okkar geti bjargað sér í einhverja daga án utanaðkomandi hjálpar. Við þurfum að búa okkur undir að vera án rafmagns og vatns í að minnsta kosti 3 daga.
Með því að geta bjargað okkur sjálf í einhverja daga léttum við álag á viðbragðsaðilum sem geta þá sinnt þeim sem eru verr stödd og það verður jafnframt auðveldara að takast á við stöðuna.
Vera með áætlun og viðlagakassa tilbúinn
Þá segir að öll heimili eigi að vera með heimilisáætlun og viðlagakassa tilbúinn. Viðlagakassinn sé hugsaður fyrir helstu nauðsynjar sem fólk þurfi til að komast af á heimili sínu í að minnsta kosti þrjá daga verði til dæmis bæði vatns- og rafmagnslaust.
Eftirtalda hluti er gott að setja í kassann:
- Útvarp
- Rafhlöður
- Kerti
- Eldspýtur/kveikjara
- Prímus eða gasgrill
- Vasaljós
- Viðgerðarlímband
- Fjölnota verkfæri
- Lista yfir mikilvæg símanúmer
- Skyndihjálpartösku
Fólk hvatt til að útbúa kassann strax
„Þá þarf matur og vatn fyrir alla fjölskylduna til þriggja daga að vera tiltækt á heimilinu. Ekki gleyma gæludýrunum. Það er aldrei að vita hvenær þörf á að grípa til viðlagakassans skapast og því hvetur Rauði krossinn landsmenn til að útbúa hann strax,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Heimild: rki.is og mbl.id
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.