Sláturhús | Guðrún Lárusdóttir bóndi skrifar

Guðrún Lárusdóttir ritari á vikt í sláturhúsi SS á Kirkjubæjarklaustri haustið 1987.    MYND AÐSEND
Guðrún Lárusdóttir ritari á vikt í sláturhúsi SS á Kirkjubæjarklaustri haustið 1987. MYND AÐSEND

Þessa dagana er deilt um hvort eigi og megi hagræða í slátrun sauðfjár og nautgripa á Íslandi. Síðustu ár hefur verið rekin slátrun fyrir sauðfé í fimm sláturhúsum á Norðurlandi og nautgripum slátrað í fjórum sláturhúsum. Það er því augljóst að tækifæri eru fyrir hendi til að hagræða í slátrun á svæðinu, bændum og neytendum til hagsbóta.

Sauðfé í landinu hefur fækkað mikið síðustu áratugi, árið 1980 voru 685 þúsund ær í landinu en voru 276 þúsund árið 2023, sem er um 60% fækkun. Bara milli áranna 2017 og 2024 fækkaði sláturlömbum um 157 þúsund. Kindakjötsframleiðsla er í sögulegu lágmarki og hefur aðeins einu sinni verið minni síðustu 40 ár eða árið 1997. Ástæður þess að minna er framleitt af lambakjöti eru eflaust margar, en megin ástæðan er sú að verð á lambakjöti hefur verið það lágt að óhætt er að tala um algjöran afkomubrest, sérstaklega á árunum 2015-2017. Hvergi á ESS-svæðinu hafa sauðfjárbændur mátt sætta sig við lægra verð, þar sem íslenskir sauðfjárbændur hafa vermt botninn með bændum í Rúmeníu.

Hvers vegna auka bændur ekki framleiðsluna?

Árið 2013 var slátrað samtals 23.169 naut-gripum í landinu, þar af 12.612 gripum í sláturhúsunum á Selfossi og Hellu. Ef þessum gripum er deilt á „stóru“ nautgripasláturhúsin sex, þá eru þetta um 74 nautgripir á hús á viku. Það er auðvitað fráleitt að hægt sé að ná ásættanlegum kostnaði í nautgripaslátrun með þessi hús öll í rekstri. Í einu sláturhúsi Danish Crown í Holsted er slátrað 500 nautgripum á dag, í allt slátrar Danish Crown 800.000 nautgripum og 15,1 milljón svína á ári. Starfmenn hjá fyrirtækinu voru 23.959 árið 2024.

Innflutningur verður stöðugt hærra hlutfall af nautakjötsneyslunni. Aldrei hefur meira magn af nautagripakjöti verið flutt inn en árið 2024, alls 2.096 tonn. Hvers vegna hafa bændur ekki aukið framleiðsluna til að mæta aukinni neyslu? Það er meðal annars vegna þess hve sláturkostnaður er hár vegna mikils óhagræðis í slátruninni. Það er jú síðasta krónan sem endar hjá bændum. Verð á nautagripakjöti til bænda hefur verið undir framleiðslukostnaði árum saman.

Furðuleg speki Samkeppnisstofnunar

Er kominn tími til að hagræða í slátrun á Norðurlandi? Árið 1960 rak Sláturfélag Suður-lands sjö sláturhús á sínu starfssvæði, auk þess sem fleiri aðilar ráku sláturhús á svæðinu. Nú rekur SS aðeins eitt sláturhús á Selfossi þar sem slátrað er bæði sauðfé og nautgripum. Viðhaldi sláturhúsa er stórlega ábótavant og þau hafa ekki burði til að taka upp tækninýjungar sem spara mannskap við slátrun. Samkeppnin er ekki milli þessara máttvana sláturhúsa heldur við innflutt kjöt.

Hvert sláturhús þarf heilan hóp af stjórnendum sem spara mætti ef sláturhús væru færri; sláturhússtjóra, framleiðslustjóra, sölu- og markaðsstjóra, gæðastjóra, svo dæmi sé tekið. Svo þarf hvert sláturhús birgðastöð fyrir sunnan með tilheyrandi mannskap. Gleymum svo ekki eftirlitinu sem er orðið mjög íþyngjandi.

Það er furðuleg speki sem nú kemur frá Samkeppniseftirlitinu að nú þurfi að auka samkeppnina með því að bændur fari að reka afurðastöðvarnar. Skemmst er að minnast þess að sláturhúsi bænda í Seglbúðum var lokað. Ástæðan sem gefin var upp var íþyngjandi eftirlitskostnaður. Það tók mörg ár fyrir Samkeppniseftirlitið að finna út úr því að Kjarnafæði mætti kaupa SAH afurðir, 3 ár að Kjarnafæði og Norðlenska mættu sameinast. Við höfum ekki tíma til að bíða eftir því að Samkeppniseftirlitið samþykki hugsanlega frekari hagræðingu í slátrun á Norðurlandi. Með fækkun sláturgripa er sláturgeta húsanna mjög vannýtt. Sláturhúsunum er að blæða út og á meðan auka innflutningsaðilar innflutning á kjöti sem bændur gætu hæglega framleitt.

Hefur nóg annað á sinni könnu en að reka sláturhús

Útspil stjórnvalda er grátlegt. Samkeppniseftirlitið bannar frekari hagræðingu og hótar fangelsisvist allt að sex árum ef eitthvað er aðhafst í þeim málum. Landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um afnám búvörulaga sem heimila samstarf og samruna afurðastöðva með það að markmiði að efla rekstrarskilyrði þeirra, en boðar nýtt frumvarp í haust þar sem bændum á að verða heimilt samstarf í slátrun. Takk fyrir kærlega, ég hef sem bóndi ekki áhuga á því að fjármagna og reka sláturhús, hef nóg annað á minni könnu.

Guðrún Lárusdóttir
bóndi í Keldudal

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir