Horfum til framtíðar | Frá fulltrúum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Byggðalista

Skagafjörður. MYND: ÓAB
Skagafjörður. MYND: ÓAB

Í Skagafirði eru í dag níu félagsheimili auk Menningarhússins Miðgarðs sem var skilgreint sem félagsheimili áður en ráðist var í verulegar endurbætur á húsnæðinu með stuðningi ríkisins. Sá stuðningur kom til vegna áherslubreytinga hjá ríkinu í uppbyggingu menningarhúsa í landsbyggðunum, en honum var á þeim tíma ætlað að gera menningartengdri starfsemi hærra undir höfði en talið var að félagsheimilin hefðu almennt burði til.

Saga félagsheimilanna, ekki bara hér í Skagafirði heldur um land allt, er gagnmerk og var bygging þeirra mikið framfaraspor fyrir sveitarfélögin á þeim tíma. Flest voru þau byggð sem samkomuhús notuð til fundahalda og félagastarfsemi ásamt því að hýsa grunnskóla og oft einnig bókasafn. Að byggingu þeirra og fjármögnun stóð sveitarsjóður á hverjum stað, auk þess sem mikilvæg framlög komu til frá félagasamtökum eins og kvenfélögum, ungmennafélögum, búnaðarfélögum og kórum svo dæmi séu tekin. Margar vinnufúsar hendur lögðu lóð á vogarskálina.

Frá því þetta var hefur hins vegar mjög margt breyst. Bættar samgöngur, kröfur um góða aðstöðu til íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og frístundamála hafa aukist og kallað á meiri og betri mannvirki tengd skólastarfinu, ásamt því að ýmis félög og ferðaþjónustuaðilar hafa í auknum mæli tekið yfir hluta þeirra félagslegu verkefna sem félagsheimilin höfðu áður.

Hvað á þá að gera við félagsheimilin?

Við þessari spurningu er ekkert einfalt svar en eftir sameiningu sveitarfélaganna urðu þinglýstir eignarhlutir hreppanna í þessum húsum eign sameinaðs sveitarfélags eins og allar aðrar eignir, skuldir og skuldbindingar sem hrepparnir höfðu átt eða haft fyrir sameiningu. Eignarhald félagsheimilanna er þó mismunandi, en af þessum 10 félagsheimilum í Skagafirði eru fimm 100% þinglýst eign sveitarfélagsins, þrjú eru í sameign með kvenfélagi, ungmennafélagi eða öðrum félögum sem óljóst er um eignarhald á, tvö félagsheimilanna hafa svo engan þinglýstan eigenda skráðan. Vinna er hafin við að skýra eignarhald í tveimur síðastnefndu tilfellunum. Þrátt fyrir að 11 af 12 sveitarfélögum hafi runnið í eitt sveitarfélag fyrir aldarfjórðungi síðan, þá eimir enn eftir af þeirri hugsun að íbúar Skagafjarðar séu ekki ein heild og dreifbýli og þéttbýli er egnt saman eins og um andstæður sé að ræða. Gömlu hrepparnir eru enn eining í huga margra og félagsheimilin hjarta þeirrar einingar. Það er því ljóst að um viðkvæmt mál er að ræða og undirrituð þakka umræðu sem á sér stað um húsin og framkomnar tillögur um framtíð þeirra.

Flest félagsheimilanna hafa á liðnum árum verið falin í hendur rekstraraðilum sem hafa séð um daglegan rekstur þeirra og útleigu til notenda. Ef litið er á rekstrartölur félagsheimilanna má glöggt sjá að notkun þeirra er oft á tíðum takmörkuð og fjárhagsleg umsvif lítil. Það er því eftir töluverðu að slægjast fyrir samfélagið að koma rekstri þeirra og viðhaldi í betra horf.

Er þá ekki skynsamlegra að finna einhverjum þessara húsa nýtt hlutverk með nýjum eigenda eða eigendum? Það er t.d. ekki ólíklegt að nálægir ferðaþjónustuaðilar gætu séð sér hag í að taka þessi hús í sína þjónustu en svo höfum við líka dæmi úr öðrum dreifbýlum sveitarfélögum, t.d. Borgarbyggð og Dalabyggð, þar sem nýir eigendur hafa blásið nýju lífi í húsin. Sumum húsanna hefur verið breytt í íbúðarhús en öðrum í lifandi húsnæði fyrir ferðaþjónustu eða listir.

Þessi mál eru ekki ný af nálinni innan stjórnkerfisins og hafa verið til umræðu í atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd, byggðarráði og sveitarstjórn. Í júní 2023 samþykktu allir kjörnir fulltrúar allra flokka í sveitarstjórn Skagafjarðar að skoða hvort ekki væri skynsamlegt að selja hlut sveitarfélagsins í mörgum þessara félagsheimila. Í framhaldinu fór af stað undirbúningsvinna og í upphafi árs 2024 var ákveðið af sveitarstjórn að funda með hlutaðeigandi forsvarsmönnum félaga sem komið hafa að eignarhaldi og/eða rekstri félagsheimilanna Ljósheima, Skagasels og í Hegranesi, með hugsanlega sölu húsanna í huga. Eftir þá fundi og einnig opna fundi sem haldnir voru með íbúum á nærsvæði fyrrnefndra félagsheimila var ljóst að ýmsar skoðanir voru uppi um hvernig fara ætti í verkefnið en allir voru sammála um að sveitarfélagið þyrfti ekki að eiga tíu félagsheimili.

Eftir ítarlega skoðun og með hagsmuni allra íbúa Skagafjarðar að leiðarljósi er niðurstaðan sú að áður en viðkomandi félagsheimili er auglýst til sölu verði kannaður grundvöllur þess, með auglýsingu, hvort áhugasamir aðilar hafi hug og getu til þess að sjá um rekstrarhald framangreindra félagsheimila, með þeim hætti að sveitarfélagið Skagafjörður beri engan kostnað af rekstri þeirra, hvort heldur sé litið til rekstrarkostnaðar í formi m.a. rafmagns, hita, trygginga og fasteignaskatta eða viðhaldskostnaðar. Gangi þetta ekki eftir verður viðkomandi félagsheimili auglýst til sölu. Til að ná sem breiðastri sátt um þessa leið verða allir að sitja við sama borð og því verður ekki hjá því komist að auglýsa viðkomandi eignir til leigu og þá sölu í framhaldinu gangi leiguleiðin ekki eftir.

Það er von okkar að þessi vegferð verði til þess að betra ástand komist á málefni félagsheimilanna í Skagafirði og að í framhaldinu fari þau annað hvort í leigu til áhugasamra aðila sem vilja glæða þau lífi eða þá að þau skipti um eignarhald og fái þannig nýtt líf í höndum nýrra eigenda.

Fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Byggðalista í sveitarstjórn Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir