Súpur og naan brauð

Mynd og uppskrifrit af síðunni Gulur rauður grænn og salt (www.grgs.is)
Mynd og uppskrifrit af síðunni Gulur rauður grænn og salt (www.grgs.is)

Það er ekki langt síðan ég fór að kunna að meta súpur því þegar ég var yngri þá hataði ég þær. Kannski vegna þess að mér fannst súpur ekki vera matur heldur drykkir og heitir drykkir voru, að mínu mati, eitthvað ógeðslegt. En með tilkomu mexíkósku kjúklingasúpurnar fór ég að gefa þeim meiri séns og viti menn þetta er bara með því betra. Reyndar eru súpur í dag mikið matarmeiri en hér áður fyrr þegar boðið var upp á pakkasúpurnar eins og blómkáls- og broccolisúpur og ekki gleyma bugðunum sem voru með, jakk...  Á síðunni Gulur rauður grænn og salt (www.grgs.is) fann ég nokkrar mjög girnilegar súpur sem mig langar að deila með ykkur ásamt uppskrift af naan brauði – vonandi njótið þið. 

RÉTTUR 1
Gulrótasúpa með engifer (fyrir 4)

    500 g gulrætur
    2 laukar, saxaðir
    20 g ferskt engifer, afhýtt og fínrifið
    3-4 hvítlauksrif, söxuð
    2 msk. smjör
    1 tsk. cumin (ath ekki kúmen)
    1 tsk. kóríander
    salt og pipar
    1 líter af grænmetissoð, t.d. frá Oscars (eða 1 msk. grænmetiskraftur frá Oscars og vatn)
    2 msk. sítrónusafi

Aðferð: Setjið smjör í pott og steikið gulrætur, lauk, hvítlauk og engifer saman og kryddið. Hellið grænmetissoðinu saman við og látið malla í 20 mínútur. Blandið í matvinnsluvél eða blandara og bætið sítrónusafa saman við. Saltið og piprið að eigin smekk.

Meðlæti: 5% sýrður rjómi, t.d. frá Mjólku og naan brauð með fetaosti og olívum.

Naan brauð með fetaosta og ólífufyllingu:

    2  ½ tsk. þurrger
    250 ml vatn, fingurvolgt
    ½ tsk. sykur
    450 g hveiti
    3 msk. ólífuolía
    1 krukka feti í kryddolíu með ólífum frá Mjólku

Aðferð: Setjið fingurvolgt vatn í stóra skál. Athugið að hafa það fingurvolgt, ef það er of heitt „deyr“ gerið og brauðið lyftir sér ekki. Bætið 400 g af hveiti saman við, 2 msk. af olíu og salti. Hnoðið saman og bætið við hveiti eftir þörfum. Brauðið á að vera örlítið klístrað en þó þannig að hægt sé að hnoða það án þess að það festist við fingurna. Hnoðið vel í um 7-10 mínútur og mótið deigið í kúlu. Látið deigið í skál og setjið 1 msk. af olíu yfir og viskustykki yfir skálina. Látið standa á heitum stað í um klukkustund eða þar til deigið hefur tvöfaldast í stærð. Hnoðið þá aftur og skiptið niður í litla bita. Fletjið hvern bita út og setjið fetaost, ólífur og smá af olíu á einn helming brauðsins. Leggið hinn helminginn yfir og fletjið út. Passið að brauðið lokist svo fyllingin leki ekki út. Penslið brauðin með kryddolíunni, stráið t.d. smá af söxuðum hvítlauk og steinselju yfir brauðin og kryddið með chili kryddi. Grillið þau síðan í ofni eða á útigrilli. Stráið ferskri steinselju yfir brauðið og berið fram með matnum.

RÉTTUR 2
Ofureinföld tælensk fiskisúpa

    1 bolli hrísgrjón
    2 msk. smjör
    500 g risarækjur
    salt og pipar
    2 hvítlauksrif, pressuð
    1 laukur, smátt skorinn
    1 rauð paprika, smátt skorin
    1 msk. rifið engifer
    2 msk. rautt karrý, Red curry paste frá Blue Dragon
    2 dósir kókosmjólk, t.d. Coconut Milk frá Blue Dragon
    960 ml nautasoð (eða vatn og 3-4 nautakraftar í teningum)
    safi úr einni límónu
    kóríander til skreytingar (má sleppa)

Aðferð: Sjóðið hrísgrjónin í 1 ½ bolla af vatni. Takið til hliðar og geymið. Bræðið smjörið í potti við meðalhita og bætið risarækjunum út á pönnuna. Steikið þar til þær eru orðnar bleikar að lit eða í 2-3 mínútur og hrærið reglulega í þeim. Saltið og piprið að eigin smekk. Takið rækjurnar úr pottinum og geymið. Setjið hvítlauk, engifer, lauk og papriku í pottinn og steikið í 3-4 mínútur eða þar til grænmetið er farið að mýkjast. Bætið rauðu karrý saman við og hrærið í eina mínútu. Bætið því næst nautasoði og kókosmjólk saman við og hrærið stöðugt í súpunni í 1-2 mínútur svo þetta blandist allt vel saman. Hitið að suðu, lækkið þá hitann og látið malla í um 10 mínútur. Bætið að lokum risarækjum, hrísgrjónum, límónusafa og kóríander saman við. Berið strax fram.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir