Ostaplötu lasagne og sjónvarpskaka

Már Nikulás með syni sína. AÐSEND MYND
Már Nikulás með syni sína. AÐSEND MYND

Már Nikulás Ágústsson er matgæðingur vikunnar í tbl 11 í ár en hann er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og býr þar með kærustunni sinni, Evu Rós Runólfsdóttur, og strákunum þeirra tveimur, Aroni Mána (5) og Mikael Mána (3). Már vinnur hjá Tengli og er einnig í helgarnámi í rafvirkjun við FNV. Eva Rós starfar á N1 sem vaktstjóri.

„Þegar maður á tvo litla orkubolta er eins gott að hafa eitthvað gott í matinn sem þeir elska að borða til að halda orkunni uppi. Ljúffenga lasagne-ið okkar slær alltaf í gegn og sjónvarpskakan með ískaldri mjólk er fljót að klárast hér á bæ”, segir Már.

AÐALRÉTTUR
Ostaplötu lasagne

Ostaplötur:
    113 g rjómaostur
    130 g rifinn ostur
    2 egg
    ítalskt pastakrydd

Aðferð: Ostarnir eru settir í skál inn í örbylgjuofn og hitaðir í u.þ.b. tvær til þrjár mínútur eða þar til að þeir eru nógu heitir til að hægt sé að hnoða þeim vel
saman. Eggin eru svo hrærð með kryddinu og svo öllu blandað saman í stórri skál og hrært vel. Ostablandan er sett á bökunarpappír og dreift vel úr henni.
Bakað á 180°C í 20 mínútur með blæstri.

Hvítlaukssósa:
    kotasæla, stór dolla
    heill hringlaga hvítlauksostur frá MS
    einn kjúklingateningur
    100 ml vatn
    ítalskt pastakrydd

Aðferð: Hvítlauksosturinn er skorinn smátt niður. Kjúklingateningurinn er leystur upp í 100 ml af sjóðandi vatni. Öllu er svo hent í blandara og blandað vel saman. Smá sjóðandi vatni bætt við ef sósan er of þykk til að blandast.

Kjötsósa:
    500 g hakk
    salt og pipar
    oregano
    basil
    puglia olía
    1 laukur
    4 hvítlauksgeirar
    1 rauð paprika
    dass af sveppum
    1 Loyd Grossman tómat og basil krukka

Aðferð: Hvítlaukurinn er skorinn niður og steiktur a pönnu upp úr olíu í smá stund. Síðan er hakkinu bætt við og steikt. Salti, pipar og hinum kryddunum bætt við. Laukur, paprika og sveppir skorin smátt niður og bætt út í hakkið með Loyd sósunni góðu og látið malla í 15 til 25 mínútur.

Aðferð við Lasagne: Botninn og hliðar á lasagnefatinu smurt með olíu. Stóra ostaplatan er skorin niður í minni plötur. Byrja að setja hakksósulag, svo hvítlaukssósu og að lokum ostaplötu. Tvö til þrjú lög eru gerð. Rifnum osti er dreift á topplagið og fatið sett í ofninn á 200°C þangað til osturinn er gullinbrúnn, u.þ.b. 15 til 20 mínútur. Borið fram með fersku salati, fetaosti og hvítlauksbrauði.

EFTIRRÉTTUR
Sjónvarpskaka

Kakan:
    4 egg
    300 g sykur
    2 tsk. vanilludropar
    250 g hveiti
    3 tsk. lyftiduft
    50 g smjör
    200 ml mjólk

Aðferð: Egg og sykur þeytt saman í hrærivél þar til blandan er orðin ljós og létt, þá er vanilludropunum bætt við. Hveiti og lyftidufti blandað vel saman og sigtað út í eggjablönduna í nokkrum skömmtum, hrært vel á milli hverra skammta. Smjörið er brætt á meðahita í potti og mjólkinni blandað við í lokinn og hituð aðeins upp, blöndunni er svo hellt rólega út í eggjahveitiblönduna á meðan vélin hrærir og leyft að hrærast vel og lengi saman. Bökunarpappír er komið
fyrir í ofnskúffu og smurður vel með kókosolíu. Blöndunni er svo hellt í skúffuna og henni dreift jafnt og vel í öll horn. Skúffan fer svo inn í ofn og bakað við 170°C í 30 til 35 mínútur eða þar til botninn er orðinn gullinn á lit. Á meðan botninn bakast er kókostoppurinn útbúinn.

Kókostoppur:
    100 g smjör
    200 g púðursykur
    70 ml mjólk
    150 g kókosmjöl

Aðferð: Bræðið smjör, púðursykur og mjólk saman í potti við meðalhita þar til púðursykurinn er allur bráðinn. Kókosmjölinu er svo hellt út í og blandað vel saman. Þegar botninn er tilbúinn er hann tekinn út og kókostoppnum dreift jafnt og vel yfir. Setjið svo botninn inn í tíu mínútur til viðbótar eða þar til kókostoppurinn fer að gyllast. Borið fram með stóru glasi af ískaldri mjólk, best þegar kakan er ennþá ylvolg.

Verði ykkur að góðu!

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir