Matgæðingur vikunnar - Kjúklingasúpa og brauðbollur með fetaosti
Matgæðingur vikunnar er Halla Rut Stefánsdóttir en hún er dóttir hjónanna Margrétar Guðbrandsdóttur og Stefáns Gíslasonar. Halla ólst upp í Varmahlíð en er búsett á Hofsósi í dag en þar starfar hún sem prestur í Hofsóss- og Hólaprestakalli. Halla gefur hér með uppskrift af súpu sem hún gerir oft og finnst alltaf jafn góð.
MEÐLÆTI
Brauðbollur með fetaosti
625 ml volgt vatn
1 bréf þurrger
2 msk. sykur
2 tsk. salt
1 kg hveiti
2 krukkur fetaostur í olíu
Aðferð: Vatn, þurrger, sykur og salt sett í skál og hrært aðeins í og látið standa í smá stund. Því næst er hveitið sett út í og hrært í smá stund. Fetaostinum er svo bætt við og er olíunni hellt af að mestu. Leggið klút eða selló yfir hrærivélaskálina og látið lyfta sér í 30 mínútur. Næst er að móta bollur og setja á bökunarpappír, þetta er svo látið lyfta sér í um 20 mínútur. Pískið eitt egg og penslið yfir bollurnar. Það ættu að nást u.þ.b. 18 stk af bollum úr uppskriftinni. Setjið í ofn á 190°C og bakið í 25 mínútur.
AÐALRÉTTUR
Kjúklingasúpa
1 paprika
1-2 laukar
3 hvítlauksrif
3 gulrætur
1 msk. engifer, rifið
2 -3 msk. rautt karrýmauk
2 dósir kókosmjólk
750 ml vatn
3 teningar kjúklingakraftur
2 msk. fiskisósa
2 msk. púðusykur
2 msk. hnetusmjör
3 kjúklingabringur, skornar í teninga og steiktar á pönnu
1 límóna
Aðferð: Léttsteikið lauk, hvítlauk, papriku og gulrætur og bætið engifer saman við. Bætið svo við rauðu karrý, vatni, kókosmjólk, kjúklingakrafti, fiskisósu, púðursykri og hnetusmjöri. Hrærið og leyfið súpunni að malla við lágan hita í u.þ.b. 30 mín.+. Kjúklingabringur skornar í bita og steiktar á pönnu, gott að setja hvítlauk á pönnuna og salta og pipra. Kjúklingnum bætt við í lokin. Kreistið safa úr límónu út í súpuna. Áður en súpan er borin fram, setjið þá kóríander saman við og saxaðar salthnetur yfir.
Verði ykkur að góðu!
Halla skorar á vinkonu sína Júlíu Þórunni Jónsdóttur að mæta til leiks sem matgæðingur með sprúðlandi spennandi uppskriftir fyrir lesendur Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.