Matgæðingar í tbl 27 - Heimagerðar kjötbollur og djöflakaka

Páll Ísak og Freyja Fannberg. MYND AÐSEND
Páll Ísak og Freyja Fannberg. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar í tbl 27, 2022, voru Freyja Fannberg Þórsdóttir og Páll Ísak Lárusson og búa þau á Ytra-Skörðugili 1. Þau hafa búið í Skagafirði í rúm tvö ár en í ágúst, í fyrra, fluttu þau í nýja húsið sitt.

„Þau eru bæði útivinnandi og hafa mikinn áhuga á búskap. Þau kynntust í landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og í komandi framtíð langar þau að vera með eigin búskap ásamt því að Freyja stefnir á dýralæknanám. Páll Ísak er úr Skagafirðinum en Freyja er af Snæfellsnesi og ætla þau að bjóða upp á tvær góðar uppskriftir sem slá alltaf í gegn hjá Freyju. Páll er hinsvegar mjög góður við grillið. 

AÐALRÉTTUR
Heimagerðar kjötbollur

    1 pakki hakk
    1 egg
    Ritzkex – hálfur pakki
    ½ piparostur
    Ítalskt pastakrydd
    2-3 matskeiðar salt og pipar
    hvítlauksrif
    rjómi
    1 stk nautakjötskraftur

Aðferð: Öll hráefnin eru sett í skál og hnoðað vel saman. Piparosturinn er rifin og Ritzkexið brotið niður í litla búta. Gott að nota hrærivél en best að
hnoða allt með höndunum. Þegar allt er orðið vel blandað saman eru gerðar litlar kúlur sem steiktar eru á pönnu upp úr smjöri. Passa að steikja kjötbollurnar þannig þær lokist vel á öllum hliðum. Rjómanum er bætt á pönnuna og nautakjötskraftur settur út í. Piparostur rifinn niður út í sósuna. Látið allt malla saman í um fimm mínútur. Okkur finnst gott að hafa ofnbakaðar kartöflur og ferskt salat með.

EFTIRRÉTTUR
Djöflakaka

    250 g smjör
    300 g sykur
    300 g púðusykur
    4 egg
    520 g hveiti
    80 g kakó
    2 tsk. Lyftiduft
    2 tsk. matarsódi
    1 tsk. salt
    4 dl mjólk

Aðferð: Smjör, sykur og púðursykur sett í skál og blandað vel saman. Eggin sett eitt og eitt í einu og hrært vel á milli. Þurrefnum er blandað saman í skál og bætt út í blönduna ásamt mjólkinni. Passa að hræra allt vel saman. Ofninn er settur á 180°C blástur. Kakan er um 45 mínútur að bakast.

Krem:

    ½ bolli flórsykur
    500 g smjör
    100 g kakó
    50 g kaffi

Aðferð: Tæplega hálfum bolla af flórsykri og smjöri hrært vel saman og kaffinu bætt út í ásamt kakóinu. Kremið þarf að þeytast í um 10 mín. Hægt að bæta við smá vatni ef kremið er of þykkt.


Verði ykkur að góðu!
Freyja og Páll skoruðu á Viktoríu Eik Elvarsdóttur á Syðra-Skörðugili.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir