Matgæðingur vikunnar - Rissoles (kjötbollur) og Anzac kaka

Björg Árdís og Andrew Osborne og börn. MYND AÐSEND
Björg Árdís og Andrew Osborne og börn. MYND AÐSEND

Matgæðingur í tbl. 2 í ár er Björg Árdís Kristjánsdóttir og er hún uppalin á Króknum. Björg býr núna í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt manninum sínum, Andrew Osborne frá Adelaide í Ástralíu, ásamt tveim börnum, Isobel Soleyju, þriggja ára og Patreki Ara sem verður tveggja ára í byrjun mars.

„Því miður erfði ég ekki hæfileikana hennar mömmu, Valgerðar Vilmundardóttur, í eldhúsinu en sé um uppvaskið á heimilinu. Andy er hins vegar mikill ástríðukokkur og elskar að horfa á matreiðsluþætti og skoðar uppskriftir á milli þess sem hann kemur nýjum fyrirtækjum af stað eða stofnar ný. Nýjasta fyrirtækið sameinar einmitt þetta en það er appið Nágrannar sem hann og félagi hans settu á koppinn í byrjun Covid á höfuðborgarsvæðinu en þeir taka að sér að senda mat heim til fólks frá hinum ýmsu veitingastöðum,“ segir Björg.

AÐALRÉTTUR
Lamba Rissoles - kjötbollur
    1 laukur, rifinn
    2 hvítlauksrif, pressuð
    1 bolli (160 g) rifinn kúrbítur (u.þ.b. 1 stór kúrbítur)
    1 kg lambahakk 
    1 msk. malað kúmen
    ⅓ bolli (80 ml) lífræn
    tómatsósa
    1 bolli (100 g) brauðrasp
    2 egg
    salt og pipar eftir smekk
    2 msk. ólífuolía

Aðferð: Blandið saman lauk, hvítlauk, kúrbít, lambahakki, kúmeni, tómatsósu, brauðrasp og eggjum. Kryddið með salti og pipar. Notið hreinar hendur og blandið saman þar til öll hráefnin hafa blandast vel. Notið ⅓ bollamál til að móta í 20 kjötbollur. Setjið plast yfir og inn í ísskáp í 15 mínútur. Hitið olíu á pönnu við miðlungs hita. Steikið bollurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið þar til þær eru eldaðar í gegn. Setjið á bakka og hyljið með álpappír til að halda hita.

Meðlæti: Sætkartöflusalat og jurtasalat. Grillað nanbrauð og auka tómatsósa.

Sætkartöflusalat og jurtasalat:
    1 stór (600 g) sæt kartafla, afhýdd og skorin í 3-4 sm bita
    1 rauðlaukur, skorinn í báta
    2 tsk. marokkósk kryddblanda
    3 msk. ólífuolía
    60 g spínatlauf (baby spinach)
    1 bolli grófsöxuð steinselja
    2 msk. sítrónusafi

Aðferð: Hitið ofninn í 220°C/ 200°C (blástur) og klæðið ofnplötu með bökunarpappír. Blandið saman sætum kartöflum, rauðlauk, kryddi og 1 msk. af ólífuolíu. Kryddið með salti og pipar og setjið á ofnplötuna. Steikið í 30–35 mínútur, snúið þeim eftir 15 mín. Takið út og setjið til hliðar til að kæla. Blandið saman í stóra salatskál og bætið steinseljunni við. Dreypið sítrónusafanum og ólífuolíunni sem eftir er yfir og kryddið með salti og pipar.

EFTIRRÉTTUR
ANZAC kaka toppuð með karamellu
    1 bolli venjulegt hveiti
    1 bolli haframjöl - fínt
    3/4 bolli kókosmjöl
    1/3 bolli púðursykur
    11/3 bollar flórsykur
    125 g smjör
    2 msk. gullsíróp (golden syrup)
    1/2 tsk. matarsódi

Karamellu sósa:
    395 g dós þéttmjólk (Condensed milk) – kemur í dós
    1/4 bolli púðursykur
    40 g smjör
    2 msk. gullsíróp

Aðferð: Forhitið ofninn í 180°C með blæstri. Smyrjið 23 cm lausbotna tertuform (3 cm djúpt). Setjið formið á bökunarplötu. Blandið saman hveiti, höfrum, kókos, púðursykri og 1/3 bolla af flórsykri í stóra skál. Gerið brunn í miðjunni. Setjið smjör, gullsíróp og 2 msk. kalt vatn í pott við lágan hita. Látið standa á hellunni í 4 til 5 mín. og hrærið í af og til þar til smjörið hefur bráðnað. Takið af hitanum. Hrærið matarsóta saman við. Hrærið smjörblöndunni saman við hafrablönduna. Setjið ¾ af hafrablöndunni í formið og þrýstið niður í botn og upp með hliðum. Bakið í 20 mín. eða þar til borninn er gullinbrúnn. Látið standa í 20 til 25 mín. Á meðan er karamellan útbúin. Blandið mjólkinni, púðursykri, smjöri og gullsírópi saman í meðalstórum potti við miðlungshita. Hrærið stöðugt í, í 8 til 10 mínútur, eða þar til blandan þykknar og er gullin. Hellið í tertuformið. Sléttið yfirborðið með skeið. Stráið afganginum af hafrablöndunni yfir. Bakið í 10 mín. eða þar til kakan hefur stífnað. Látið standa í 30 mín. og geymið síðan í kæli í 2 klst. Setjið tertuna á framreiðsludisk. Setjið 1 bolla af flórsykri og 1/2 bolla af heitu vatni í pott við lágan hita. Hrærið í 3 mín. eða þar til sykurinn er uppleystur. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp. Sjóðið, án þess að hræra í, í 8 mín. eða þar til blandan verður gullin. Setjið til hliðar í 30 sek. til að loftbólur minnki. Dreypið karamellu yfir tertuna. Látið standa í 15 mín. eða þar til stíft. Berið fram.

Verði ykkur að góðu!


Björg skoraði á Andrés Magnússon og Önnu Ágústsdóttur sem koma með uppskriftir í tbl. 4 sem verður gefið út í næstu viku. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir