Grillaður kjúklingabringuborgari og heit eplakaka

Valgerður og fjölskylda. AÐSENDAR MYNDIR
Valgerður og fjölskylda. AÐSENDAR MYNDIR

Matgæðingur í tbl 25, 2021, var Valgerður Karlotta Sverrisdóttir en hún er fædd og uppalin á Sauðárkróki en býr í dag í Reykjavík. Þangað flutti hún árið 1996 og er gift tveggja barna móðir. Hún á þau Sverri Má, 16 ára sem byrjaði í framhaldsskóla síðasta haust, og Filippíu Huld, sem verður 21 árs í haust og er nemandi við HÍ að læra ensku. Valgerður menntaði sig sem kjólasvein en hefur unnið á lögfræðistofu í 15 ár en passar sig á að njóta lífsins.

„Mér finnst fátt betra en að liggja uppi í sófa í mikilli leti og horfa á sjónvarpið. Er orðin algjör fótboltabulla og held með Liverpool í dag. Byrjaði árið 2018 því ég fattaði fótbolta frekar seint.....heheh,“ segir Valgerður sem játar að þegar hún fer á Krókinn þá sé hún á leiðinni heim.

AÐALRÉTTUR
Grillaður kjúklinga- bringuborgari með kartöflubátum

    1 pk. kjúklingarbringur - 4 stk. / hver bringa skorin í tvennt
    2 pk. kartöfluhamborgarabrauð
    2 stk. miðlungskartöflur á mann
    cheddar ostur
    salat
    avókado
    paprika
    tómatar
    Heinz - seriously good majones
    hamborgarasósa eða chili
    bearnaise-sósa

Aðferð: Kjúklingabringur kryddaðar með hvítlauksolíu, heitu pizzukryddi frá Pottagöldrum, salti, cayenne pipar, hvítlaukssalti og rifnum parmesanosti. Þetta er svo grillað. Brauðið hitað, eða ristað, og smurt með Heinz majonesinu, salati og cheddar ostinum. Svo eru bringurnar settar ofan á brauðið ásamt grænmetinu og til að toppa þetta er sósan svo sett ofan á allt saman.

Meðlæti: Kartöflur skornar í báta og kryddaðar með hvítlauksolíu og salti. Grillaðar jafn lengi og kjúklingurinn.

EFTIRRÉTTUR
Eplakaka með rjóma

    8-10 stk lítil epli eða 4 stór                                                                                                                                                          kanilsykur
    rjómadropar frá Freyju
    350 g smjör (ekki gott að nota smjörlíki)
    350 g fínt spelt
    250 g. hrásykur og eða
    pálmakókossykur

Aðferð: Epli brytjuð ofan í eldfast mót, kanilsykur yfir (gott að blanda kanilsykrinum saman við eplin), droparnir ofan á. Bræða smjör við vægan hita, setja spelt og sykur út í (ef notað er pálmasykur verður blanda dökk). Persónulega finnst mér betra að nota hrásykur en átti hann ekki núna og notaði því pálmasykurinn. Blandan smurð ofan á og sett inn í heitan ofn við 175°C í 40-45 mínútur. Mikið atriði að súkkulaðið sé farið að koma í gegnum gumsið að ofan, þá er þetta orðið virkilega djúsí og gott. Borið fram með rjóma og eða ís.

Verði ykkur að góðu!
Valgerður skoraði á frænku sína, Rögnu Maríu í Hátúni. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir