Folaldafille með brokkolísalati og sveppasósu

Friðrik Már Sigurðsson á Lækjarmóti í Húnaþingi vestra
Friðrik Már Sigurðsson á Lækjarmóti í Húnaþingi vestra

Matgæðingur í tbl 7 á þessu ári var Friðrik Már Sigurðsson en hann býr á Lækjamóti í Húnaþingi vestra ásamt eiginkonu sinni, Sonju Líndal Þórisdóttur, og tveimur börnum. Friðrik situr í sveitarstjórn og í byggðarráði í Húnaþingi vestra og er einnig meistaranemi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík. Ekki nóg með það þá eru bústörfin, tamningar og þjálfun hesta eitthvað sem hann sinnir ásamt öllu hinu.

„Framundan hjá mér er póstkosning hjá Framsóknarflokknum en ég gef kost á mér í 3.-4. sæti á lista hans í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í haust. Ástæða þess er sú að mig langar að fá tækifæri til þess að gera gott samfélag enn betra og vera virkur þátttakandi í mótun þess,“ segir Friðrik. Friðrik segist vera mjög virkur í eldhúsinu á heimilinu og hefur gaman af því að elda góðan mat. Eldamennskan snýst um að koma með mest af smjöri og rjóma í allar máltíðir. Friðrik langar að gefa ykkur uppskrift að þeirri máltíð sem í dag er í uppáhaldi og hann eldar þegar hann vill gera vel við fjölskylduna.

AÐALRÉTTUR
Steikt folaldafille

   800 g folaldafille, hreinsa burtu himnur ef þær eru til staðar

   40 g smjör

   1 hvítlauksrif, smátt saxað

   salt

   pipar

   rósmarín

Aðferð: Byrjið á að krydda kjötið með salti, pipar og rósmarín eftir smekk. Hitið smá olíu á pönnu og setjið um 40 g af smjöri og eitt smátt saxað hvítlauksrif á pönnuna. Þegar fer að krauma á pönnunni þá brúnið þið kjötið á öllum hliðum þannig að það sé lokað og fallega gullið. Setjið kjötið í eldfast mót og hellið
olíunni/smjörinu yfir. Setjið kjötið í heitan ofn við 200°C og steikið í um 10-12 mínútur. Það er gott að snúa kjötinu við þegar eldunartíminn er hálfnaður og setja smjörklípu ofan á það. Látið svo standa í fimm mínútur áður en kjötið er skorið og borið fram. Athugið að eldunartími fer eftir stærðinni á kjötinu og smekk hvers og eins. Sjálfum finnst mér best að taka kjötið úr ofninum þegar það er komið í um 57°C kjarnahita og láta það svo standa smá stund
áður en það er borið fram.

Brokkolísalat:

   1 brokkolíhaus

   1/2 rauðlaukur

   um 300 g beikon

   majónes og/eða 36% sýrður rjómi eftir smekk

   pipar

   sletta hvítvínsedik

Aðferð: Byrjið á að skera brokkólíið í fremur smáa bita, hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í fimm til sjö mínútur, hellið þá vatninu af. Skerið beikonið í bita og steikið á pönnu. Bætið beikoninu við brokkolíið og kælið í ísskáp. Þegar þetta er orðið kalt þá saxið þið rauðlaukinn fremur fínt og bætið útí. Bætið við majónesi og/eða 30% sýrðum rjóma, a.m.k. fjórum msk. eða eftir smekk og kryddið með svörtum pipar. Smá sletta af hvítvínsediki getur líka gert gæfumuninn. Geymið í kæli því þetta smakkast best kalt.

Sveppasósa:

   olía

   smjör

   8-10 sveppir

   1 hvítlauksrif

   ½ l rjómi

   1 villisveppaostur

   2 teningar sveppakraftur

   gamli rjómaosturinn

   salt og pipar

   og meira smjör

Aðferð: Setjið smá af olíu í pott og bætið 30 g af smjöri við ásamt einu smátt skornu hvítlauksrifi. Bætið við niðurskornum sveppum og steikið í smá stund. Bætið rjómanum, sveppakrafti og smátt skornum villisveppaostinum við og hitið. Smakkið til með salti og pipar og bætið endilega rjómaosti við eftir ykkar smekk. Svo er mjög gott að setja góða klípu af smjöri út í sósuna stuttu áður en hún er borin fram.

 

Verði ykkur að góðu!

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir