Matgæðingur vikunnar - Beikonvafinn skötuselur og súkkulaðikaka

Matgæðingurinn Ragnar Helgason og fjölskyldan hans. MYND AÐSEND
Matgæðingurinn Ragnar Helgason og fjölskyldan hans. MYND AÐSEND

Matgæðingur vikunnar er Ragnar Helgason, fjármálaráðgjafi einstaklinga hjá Arion banka á Sauðárkróki. Ragnar er giftur Erlu Hrund Þórarinsdóttur, sérfræðingi í fjármálum hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, en saman eiga þau synina Mími Orra, Rökkva Rafn og Hugin Frey. Ragnar ólst upp í Varmahlíð, bjó um tíma í Reykjavík en flutti svo á Krókinn fyrir sex árum síðan og hér vill fjölskyldan vera.

„Mér finnst gott að hafa nóg fyrir stafni og hafa næg verkefni til að sökkva mér í. En inn á milli er alltaf gaman að brasa í eldhúsinu, sérstaklega þegar maður hefur tíma og getur nostrað aðeins við matinn. Ég hef einnig alltaf gaman af því að prufa eitthvað nýtt."  

AÐALRÉTTUR
Beikonvafinn skötuselur á ristuðu brauði með kaldri hvítlaukssósu
    1 kg skötuselur
    500 g beikon
    olía
    pipar

Aðferð: Skötuselurinn er snyrtur til og vafinn inn í nokkrar sneiðar af beikoni. Nuddað upp úr olíu og pipar. Bakaði í 200°C heitum ofni í 20 mínútur.

Hvítlaukssósa:
    1 dós sýrður rjómi
    2 msk. majónes
    2-4 hvítlauksrif
    1 msk. sýróp
    salt og pipar

Aðferð: Sýrðum rjóma og majónesi blandað saman. Hvítlauksrif söxuð niður í smátt og hrærð út í ásamt sýrópinu (eða annari sætu) og dass af salti og pipar. Gott er að búa til sósuna daginn áður.

EFTIRRÉTTUR
Súkkulaðikaka með karamellukremi
    100 g smjör
    2 egg
    3 dl sykur
    1 og 1/2 dl hveiti
    5 msk. kakó
    2 tsk. vanillusykur
    hnífsoddur salt

Aðferð: Bakarofn hitaður í 175°C, undir- og yfirhita. Smjörið brætt. Restin af hráefninu sett í skál og brædda smjörinu bætt út, hrært þar til deigið hefur blandast vel saman. Bakað við 175°C í 20 mínútur (tips – baka minna en meira)

Karamellukrem:
    2 dl rjómi
    1 dl sykur
    1 dl síróp
    100 g suðusúkkulaði
    100 g smjör

Aðferð: Öll hráefnin, fyrir utan smjörið, sett í pott. Hrært í blöndunni og suðan látin koma upp. Blandan látin malla þar til hún þykknar, tekur u.þ.b. 10 mínútur, gott að hræra svolítið í á meðan. Því næst er potturinn tekinn af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman.

Verði ykkur að góðu!
Ragnar skorar á Magnús Barðdal að taka við næsta matgæðingaþætti Feykis. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir