Mun hlusta á raddir landsmanna | Halla Hrund Logadóttir

Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Halla Hrund Logadóttir gaf Feyki.

Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Ég býð mig fram í embætti forseta Íslands sem fulltrúi almennings og fólksins á landinu öllu. Ég vil tryggja jafnan aðgang að tækifærum og stuðla að því að hugvit sé virkjað og að náttúruauðlindir séu nýttar á sjálfbæran hátt. Sem forseti mun ég hlusta á raddir landsmanna og vinna að því að byggja upp samfélag þar sem allir fá tækifæri til að blómstra.

Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Ég hef óbilandi trú á Íslandi og vil styðja við nýsköpun, atvinnulíf og menningu, auk þess að miðla þekkingu minni á auðlinda- og orkumálum. Auðlindir okkar, hvort sem það er hreina orkan eða gjöful fiskimið, eru verðmætasta sameign þjóðarinnar og fela í sér okkar stærstu tækifæri. Ég vil vinna að því að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu ótrúlega margt fólk um allt land er að gera spennandi hluti. Tækifærin eru sannarlega óteljandi og við verðum að sameinast um að grípa þau. Fólkið á Íslandi er ótrúlega skapandi og kraftmikið, og það gefur mér mikla von um framtíðina.

Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Ég hef verið ótrúlega lánsöm í lífinu og áskoranir hafa yfirleitt leitt af sér einhvern lærdóm. Stærstu áskoranirnar hafa líklega verið tengdar því að finna jafnvægi milli fjölskyldu og starfs, en þær hafa einnig verið mest gefandi.

Hvar og hvenær sástu maka þinn fyrst? - Ég sá Kristján Frey, manninn minn, fyrst í partýi hjá sameiginlegum vini sumarið 2011. En svo var það viku seinna fyrir framan sviðið á Þjóðhátíð þegar við hittumst almennilega í fyrsta skiptið. Við dönsuðum við La Dolce Vita með Páli Óskari og það var ekki aftur snúið.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Mig dreymdi um margt sem barn, meðal annars að verða bóndi, hjúkrunarfræðingur, eins og mamma, kennari og dýralæknir.

Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður kosin forseti? - Já, ég hef sagt að ég held að það færi vel á því að hafa nokkrar kindur og hesta á Bessastöðum. Á sama tíma og ég er talsmaður þess að horfa til framtíðar og vera opin fyrir breytingum, tel ég mikilvægt að við höldum í tengslin við sögu okkar og menningu. Búskapur á Bessastöðum væri táknrænt fyrir tengingu okkar við landið og arfleifðina.

- - - - -

Allir fengu frambjóðendurnir sömu spurningarnar. Tilviljun og rými réðu því í hvaða röð forsetaefnin fóru á síður pappírsútgáfu Feykis. Birtingartíminn hér á Feykir.is er öfug röð miðað við blaðið en viðtölin munu birtast frá miðvikudegi til föstudags. Feykir þakkar forsetaefnunum fyrir að gefa sér tíma til að svara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir