Stemmingin, gleðin og ánægjan er það besta við Bjórhátíðina á Hólum

Bjór. MYND AF NETINU
Bjór. MYND AF NETINU

Bjórhátíðin á Hólum er nú um helgina í Hjaltadalnum, nánar tiltekið í íþróttasal Hólaskóla á milli kl. 15 og 19. Hátíðin hefur fest sig í sessi sem ein helsta bjórhátíð landsins en í kynningu segir að flest öll brugghús muni mæta á hátíðina og munu gestir geta smakkað bjór frá þeim að vild – eða þangað til kútarnir tæmast. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir einn höfuðpaura hátíðarinnar, Bjarna Kristófer Kristjánsson, hjá Bjórsetri Íslands.

Hvað er gert á Bjórhátíðinni á Hólum? „Bjórhátíðin á Hólum er matarhátíð, þar sem fólki stendur til boða að smakka margvíslegan handverksbjór. Auk þess hefur hátíðin þróast yfir í mikla matarhátíð, þar sem boðið er upp á heimagerðar kræsingar. Fjölmargir gera sér ferð á Hóla bara fyrir matinn. Á hátíðinni er líka árleg kútarúll-keppni, þar sem keppst er við að rúlla bjórkút í gegnum þrautabraut. Það er happadrætti, þar sem aðalvinningurinn er að taka þátt í bruggun hjá okkur í Bjórsetri Íslands, gisting og matur í boði Kaffi Hólar. Þátttakendur kjósa svo um besta bjór hátíðarinnar,“ segir Bjarni en segir að í ár verði 13 brugghús á hátíðinni og einn framleiðandi á óáfengum drykkjum en yfirleitt er hver þáttakandi með 2-4 bjóra og því útlit fyrir spennandi úrval fyrir áhugafólk um bjór.“

Er einhver einn bjór sem þú ert spenntur fyrir að smakka þetta árið? „Ég er ekki kominn svo langt að pæla í því. Við erum búin að vera á fulli í undirbúningi, bruggun á bjór og að setja hann á dósir, þannig að það gefst lítill tími. En það eru ýmsar tískur í bjórgerðinni, stundum mikið af sterkum dökkum, stundum mikið af sumarsúrbjórum, en allir eru þeir góðir. Mér finnst bjórar sem líkja eftir enskum ölum góðir og vonandi verða einhverjir þannig til að smakka.“

Hvað er það besta við Bjórhátíðina á Hólum? „Stemmingin, gleðin og ánægjan. Mér finnst magnað hvað allir sem mæta eru áhugasamir um að smakka. Hátíðin er ekki of stór, þannig að það er hægt að spjalla við bruggarana. Maturinn er svo frábær.“

Hafa þeir sem ekki drekka áfengi gagn að því að heimsækja hátíðina? „Þeir sem ekki drekka geta notið matarins og stemmingarinnar á hátíðinni. Við höfum verið með sérstaka díla við innganginn fyrir bílstjóra,“ bætir Bjarni við og áréttar síðan að Bjórhátíðin sé nú á laugardaginn og stendur milli 15 til 19. „Á föstudagskvöldinu og laugardagskvöldið verður barinn okkar á Hólum opinn, þó lítill sé. Við verðum með stórt tjald þannig að hægt er að setjast inn í það til að borða og spjalla.“

Veðurspáin gerir ráð fyrir sólarleysi en nokkuð hlýju og stilltu veðri á laugardeginum. Því ættu gestir ekki að þurfa óttast sólbruna – sem er kostur – en ættu að geta notið hátíðarinnar í hófstilltu sumarveðri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir