Signý í Landsbankanum á Skagaströnd ætlaði varla að þekkja sjálfa sig

Signý fyrr og nú. MYNDIR AÐSENDAR
Signý fyrr og nú. MYNDIR AÐSENDAR

Landsbankinn á Skagaströnd er fluttur úr Höfða yfir í Túnbraut 1-3. Við tiltektina í gamla útibúinu fann Signý Ó. Richter, þjónustustjóri bankans, gamla mynd af sér. „Ég ætlað varla að þekkja mig á myndinni,“ segir Signý og hlær dátt. Til gamans ákvað hún að taka aðra mynd á sama stað, um 30 árum síðar. Svona líður tíminn…

Árið 1982 tók Landsbankinn yfir Sparisjóð Skagastrandar og opnaði afgreiðslu í Höfða, reisulegu húsi í hjarta bæjarins, en þar hafði áður verið trésmíðaverkstæði. Nú 42 árum síðar er bankinn fluttur í nýuppgert húsnæði að Túnbraut 1-3 sem einnig hýsir stjórnsýsluhús bæjarins, þ.e. Sveitarfélagið Skagaströnd og útibú Vinnumálastofnunar.

Notuðu kaffitíma og matarhlé til að fara í bankann

„Það er af sem að áður var þegar það voru þrír bankar með afgreiðslu á Skagastönd en Búnaðarbankinn og Alþýðubankinn voru reyndar ekki með opið alla daga,“ segir Signý. „Í þá daga notaði fólkið í bænum kaffitímana sína og matarhlé til að skreppa í bankann og taka út af sparisjóðsbókunum sínum og borga reikninga. Þá var heldur betur handagangur í öskjunni en svo urðu ávísanir algengari og algjör bylting þegar debetkortin komu.

Á þessum tímum voru átta starfsmenn bankans að stússa í ýmsum verkefnum sem viðskiptavinir nútímans sjá sjálfir um að ljúka við í appinu eða netbankanum. Áður fyrr var mikið um að við gerðum millifærslur fyrir viðskiptavini. Ein millifærslubeiðnin, uppáhalds millifærslan mín, hefur fylgt okkur lengi. Sá viðskiptavinur hafði ekki fundið neitt blað til að skrifa reikningsupplýsingarnar á og skrifaði því bara á nálægan spítukubb sem hann fann á verkstæðinu þar sem hann vann og kom með hann til okkar.

Önnur ógleymanleg afgreiðsla var þegar bóndi utan af Skaga kom til að borga fyrir varahlut sem hann hafði pantað í dráttarvél hjá sér. Hann var farið að lengja eftir bankaupplýsingum og hringdi í seljandann, fékk bankaupplýsingarnar sendar með pósti og þessa vísu með:

   Ég vildi að fleiri væru eins og þú,
   vildu greiða alla skuldir sínar.
   Hef ég þeirri hugsjón verið trú,
   héðan færðu bestu kveðjur mínar.“

Gamla klukkan stoppaði síðasta daginn

Signý segir að það sé ákveðin áskorun að flytja úr 120 fermetra húsnæði í Höfða í 34 fermetra við Túnbraut. „Það er bjart og fallegt hjá okkur bæði í nýju afgreiðslunni á Skagaströnd og á Blönduósi. Við opnuðum útibúið á Blönduósi árið 2023 þegar annar banki hætti þar starfsemi en þar hafði Landsbankinn ekki áður verið með útibú. Þótt afgreiðslum í útibúum hafi fækkað geta viðskiptavinir Landsbankans áfram fengið persónulega þjónustu og ég er ánægð með að bankinn haldi úti svona stóru útibúaneti um allt land, eða alls 35 útibúum.

Gamla húsnæðið okkar í Höfða var of stórt fyrir starfsemina og það er alltaf gott að hreinsa til hjá sér reglulega. Mér fannst það samt svolítið táknrænt að þegar ég fór í gamla útibúið, daginn eftir að við fluttum til þess að sækja eitthvað smá dót, að þá hafði gamla veggklukkan þar stoppað, síðasta daginn sem útibúið var opið!“

Landsbankinn á Skagaströnd er opinn frá kl. 12-15 mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Afgreiðsla bankans á Blönduósi er opinn frá kl. 12-15 á þriðjudögum og fimmtudögum. Á báðum stöðum eru hraðbankar aðgengilegir allan sólarhringinn.

/Aðsent

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir