Rabb-a-babb 226: Sara Diljá

Sara Diljá. AÐSEND MYND
Sara Diljá. AÐSEND MYND

Að þessu sinni ber Rabbið að dyrum á Skagaströnd hjá Söru Diljá Hjálmarsdóttur, skólastjóra Höfðaskóla. Hún er gift Birki Rúnari Jóhannssyni og saman eiga þau Arnar Gísla 11 ára, Fanndísi Öldu 9 ára og Bríeti Dögg 2 ára, já og hundinn Skugga. Sara er fædd árið 1989 en það ár kom þriðja myndin um Indiana Jones út (þessi með Sean Connery), sem og Glory, When Harry Met Sally og Honey, I Shrunk the Kids og auðvitað miklu fleiri myndir. Madonna gaf út Like a Prayer.

„Ég er dóttir foreldra minna,“ segir Sara Diljá létt. „Þau heita Ingunn Alda og Hjálmar Ingi, búsett í Mosfellsbæ. Ég er fædd og uppalin á fallegasta stað landsins, Stykkishólmi,“ segir hún og bætir við að þetta sé alveg hlutlaust mat – eða þannig. „Ég er búin að læra alls konar, er með B.Ed. gráðu í kennslu ungra barna, M.Ed. gráðu í kennslufræði yngri barna í grunnskóla, Diplómu í stjórnun og stefnumótun menntastofnanna og stefni svo á diplómu í opinberri stjórnsýslu í haust.“

Hvað er í deiglunni? Hvar á ég að byrja? Alltaf nóg í deiglunni.

Hvernig nemandi varstu? Fyrirmyndar nemandi, sennilega frekar óþolandi hjá þeim sem voru það ekki, kennarasleikja myndu enn aðrir segja.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Hvað var rosalega vandræðalegt þegar ég þorði ekki að bjóða fólk velkomið í veisluna mína svo pabbi minn gerði það og byrjaði á að segja „já Sara þorir ekki að tjá sig svo ég geri það fyrir hana“.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Flugfreyja, sálfræðingur eða kennari.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Sem lítill krakki var það Barbie (ég er enn reið út í bróðir minn sem braut Barbie ísskápinn minn árið 1995, hann þá tveggja ára) og á unglingsárum var það körfubolti.

Hvert er uppáhalds leikfangið þitt í dag? Sjá svar Evu Guðbjarts í Rabb–a–babb.

Besti ilmurinn? Heimilisilmurinn hjá mömmu og pabba.

Hvar og hvenær sástu núver-andi maka þinn fyrst? Ég sá hann fyrst á rúntinum um götur Stykkishólmsborgar. (Sennilega séð hann samt áður, sem krakki, en man ekki eftir því).

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Dabbi T. körfuboltadómari með meiru átti mest spilaða lagið á rúntinum – Gremja.

Hvernig slakarðu á? Fer í heita pottinn okkar, horfi á raunveruleikasjónvarp eða fer á trúnó með góðri vinkonu.

Hvaða seríu varstu síðast að hámhorfa? The Block, svakaleg dramatík í nýjustu seríunni.

Hvað bíómynd var í mestu uppáhaldi þegar þú varst unglingur? Þessi er einföld – Love&basketball.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Kobe Bryant var alltaf minn uppáhalds, á yngri árum var Allen Iverson geggjaður. Á Íslandi er það Elísa Bríet Björnsdóttir, stórkostleg fótboltakona.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Prjóna! Níu ára dóttir mín er samt að nálgast mig á því sviði svo ég ætla að njóta þess á meðan enn varir.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Vera ekki fyrir.

Hættulegasta helgarnammið? Eitt sett bitar.

Hvernig er eggið best? Steikt báðum megin.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað ég get tuðað mikið yfir umgengni heimilismanna en tuða líka yfir þegar þau ganga frá, því þau gera það ekki rétt :) Það er vandlifað.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óstundvísi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? The moment you give up is the moment you let someone else win – Kobe Bryant.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Fjögurra ára gömul fór ég austur á Egilsstaði í pössun til ömmu og afa þegar mamma var rétt í þann mund að fara eiga bróðir minn. Svo kom símtalið frá pabba, hann tilkynnti mér að ég hefði eignast bróðir og ég skellti á hann. Þau fengu ekki memoið um að ég vildi systur.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég myndi vilja vera Oprah Winfrey og myndi eyða deginum í að gefa eitthvað af þessum peningum mínum til menntamála í þróunarlöndunum.

Hver er uppáhalds bókin þín? Ég á nokkrar uppáhaldsbækur, t.d. Ör eftir Auði Övu og Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarins.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Punkturinn er samt sá.....

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Adam Silver, Donnu Orender og Guðbjörgu Norðfjörð Elíasdóttur, bara aðeins til að velta steinum :)

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?  Ekki bara hattastandur.

Framlenging: 

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Ástralíu.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Mjög mjög margt, en þrennt… Fara til Tælands, sjá Pink á tónleikum og prófa að breyta um hárlit (sennilega það erfiðasta af þessu þrennu).

- - - - - -
Rabbið við Söru Diljá birtist fyrst í 19. tölublaði Feykis 2024.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir