Geri alltaf mitt besta | Katrín Jakobsdóttir

Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Katrín Jakobsdóttir gaf Feyki.

Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Ég er mótuð á miklum umbrotatímum í stjórnmálum. Það hefur kennt mér að hlusta eftir ólíkum sjónarmiðum og virða þau. Sú reynsla og þekking sem ég hef öðlast á íslensku samfélagi tel ég að nýtist þjóðinni vel verði ég forseti Íslands. Rætur mínar í bókmenntum og sögu hafa alltaf verið stór hluti af lífi mínu og forseti þarf að standa styrkum fótum í fortíðinni til að geta horft til framtíðar.

Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Mér finnst ég geta gert gagn fyrir þjóðina í þessu embætti. Mér þykir vænt um íslenskt samfélag sem byggist á samheldni og trausti og ég vil gera mitt til að tryggja að þannig verði það áfram.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Það hefur kannski fátt komið mér á óvart í þessari baráttu en það sem hefur verið einstaklega fallegt og mikilvægt fyrir mig er þessi stóri og fjölbreytti hópur fólks sem styður mig. Stundum er fólk að reyna að gera forsetakosningar að flokkspólitískum kosningum en það hefur aldrei tekist. Fólk er einfaldlega að velja manneskju sem það treystir til að sinna þessu mikilvæga embætti.

Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Þegar ég horfi yfir feril minn í stjórnmálum var heimsfaraldurinn stærsta áskorunin, ekki bara mín heldur þjóðarinnar allrar. Ég er stolt af því að Ísland sé í öðru sæti yfir þær þjóðir sem best gekk að vernda líf og heilsu fólks á sama tíma og okkur tókst að auka kaupmátt allra tekjutíunda í faraldrinum. Ég tel að þar hafi gildin sem við höfðum að leiðarljósi skipt miklu. En í einkalífinu hafa áskoranirnar auðvitað verið margar og sú stærsta að hlúa að fjölskyldunni minni á öllum tímum, jafnvel þó að oft hafi mikið gengið á í vinnunni.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? - Við Gunnar hittumst fyrst í gegnum sameiginlegan vin í háskólanum. Það er skemmst frá því að segja að samband okkar hófst á rifrildi þannig að þetta var ekki ást við fyrstu sýn. Síðan eru liðin rúm 20 ár og sambandið farið batnandi!

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Ég hafði alls konar hugmyndir þegar ég var barn, meðal annars ætlaði ég að verða skurðlæknir og poppstjarna. Það sem hefur hins vegar alltaf ráðið för hjá mér er að gera mitt besta í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur.

Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður forseti? - Ég þekki ágætlega hve mikið vinnuálag er á bændum og held að skyldur forseta og dagskrá gefi ekki mikið svigrúm fyrir almennt búfjárhald. Ég mun hins vegar áfram njóta þess að heimsækja sveitir landsins, ekki síst Skagafjörð og Húnavatnssýslur :o) En það gæti verið gott að hafa gróðurhús á Bessastöðum.

- - - - -

Allir fengu frambjóðendurnir sömu spurningarnar. Tilviljun og rými réðu því í hvaða röð forsetaefnin fóru á síður pappírsútgáfu Feykis. Birtingartíminn hér á Feykir.is er öfug röð miðað við blaðið en viðtölin munu birtast frá miðvikudegi til föstudags. Feykir þakkar forsetaefnunum fyrir að gefa sér tíma til að svara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir