Fyrsta skóflustungan tekin að nýjum leikskóla í Varmahlíð

Ísak fékk fljótlega öfluga aðstoð eftir fyrstu skóflustunguna. MYNDIR/GG
Ísak fékk fljótlega öfluga aðstoð eftir fyrstu skóflustunguna. MYNDIR/GG

Það var gleðidagur í Varmahlíð í dag þegar börnin á leikskólanum Birkilundi tóku fyrstu skóflustunguna að nýjum 550 fermetra leikskóla sem á að rísa við hlið Varmahlíðarskóla og rúma 65 börn. Einar E. Einarsson formaður byggðarráðs fór yfir sögu leikskólans í Varmahlíð áður en Kristófer Már Maronsson formaður fræðslunefndar tók svo til máls og óskaði tilvonandi nemendum, starfsfólki, foreldrum og íbúum innilega til hamingju með áfangann. Það var svo hann Ísak Frosti Holzem sem tók allra fyrstu skóflustunguna áður en restin af börnunum fékk að moka. 

Einar E. Einarsson fór stiklaði í grófum dráttum yfir sögu leikskólans í Varmahlíð sem er um margt merkileg og hefst fyrir tilstuðlan foreldra 4.júlí 1982 þegar undirbúningshópur kom saman og stofnaði Foreldrafélag Seyluhrepps, sem síðan leiddi verkefnið um stofnun leikskóla áfram. 

Í upphafi lagði Varmahlíðarskóli til húsnæði undir starfsemina, húsið Hvannahlíð sem var áður notað sem kennarabústaður. Leikskólinn tók til starfa 27. september 1982. Í upphafi var leikskólinn rekinn af fyrrgreindu Foreldrafélagi en Seyluhreppur greiddi 40% af rekstrarkostnaði leikskólans í samræmi við þáverandi lög. 

Þetta rekstrarfyrirkomulag var viðhaft allt til ársins 1993 en þá var ákveðið að Seyluhreppur tæki við rekstrinum í samstarfi við Akra - og Lýtingsstaðahrepp. 

Það átti eftir að koma á daginn að nýi leikskólinn í Varmahlíð var ekki eingöngu fyrir börnin í hverfinu eins og talið var í fyrstu að hann væri því ekki leið á löngu þangað til börnin í dreifbýlinu fóru einnig að sækja skólann og í dag er það þannig að hvert einasta barn bæði úr þéttbýlinu og dreifbýlinu sækir skólann og staðreyndin er sú að nútíma samfélag gæti ekki án þessarar þjónustu verið. 

Eftir sameiningu sveitarfélaganna árið 1998 varð síðan rekstur leikskólans á forræði Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps, sem átti 25% hlut í skólanum. Strax eftir sameiningu sveitarfélaganna var svo ákveðið að byggja nýjan leikskóla sem myndi rúma 25 börn og var Birkilundur vígður 29. janúar 1999. Árið 2015 var tekið á leigu húsnæði sem áður hýsti pósthús annarsvegar og banka hinsvegar og Reyniland varð til og eru nú 44 börn í Birkilundi. 

Stefnt að opnun haustið 2025

Áætlað er að nýi leikskólinn sem verið er að hefjast handa við að byggja verið fullbúinn og tilbúin til notkunar haustið 2025. Fyrsti áfangi er snýr að ytrabyrði og að reisa húsið er í höndum Uppsteypu ehf en stefnt er á að bjóða út frágang innandyra á haustmánuðum. 

Nýi leikskólinn verður staðsettur við hlið Varmahlíðarskóla og miðast öll hönnun byggingarinnar við að skólann verði hægt að stækka í komandi framtíð, en einnig mun tenging hans við húsnæði Varmahlíðarskóla bjóða upp á margvíslega samvinnu þessara tveggja skólastiga á komandi árum.

Það er gaman að bæta því við að rétt áður en fyrsta skóflustungan var tekin af nýja leikskólanum mátti sjá þegar keyrt var með nýtt íbúðarhús sem verið hefur í byggingu inn Birkimelinn í Varmahlíð, sem er að mörgu leiti tákrænt fyrir alla þá miklu fjölgun fólks sem hefur verið á svæðinu undanfarin ár og vonandi um ókomin ár. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir