Viljum við hafa byggð í Fljótum, og í dreifbýli Skagafjarðar?
Síðasta áratug höfum við íbúar í Fljótum fundið fyrir miklum þrýstingi frá sveitarstjórn, að vinstri grænum frátöldum, um að leggja niður þjónustu hér til að spara fyrir sveitarfélagið.
Hér er um að ræða grunnskólann og sundlaugina, sem sagt skóla barnanna og íþróttamannvirkið. Hér er um óverulegan sparnað að ræða fyrir sveitarfélagið, sé litið á hið stóra samhengi og kostnað skólamála og íþróttamála í sveitarfélaginu, en grundvallar breytingu fyrir Fljótin.
Hér er nefnilega um það að ræða hvort vera eigi byggð í Fljótum yfirhöfuð. Það er einfaldlega staðreynd að það tekur börnin allt að 2 tíma á dag að fara fram og aftur í skólann á Hofsósi á góðum degi. Í skafrenningi og leiðindum, eða þæfingi, væri jafnvel um að ræða 3-4 tíma skólaakstur á dag. Sundlaugina þarf ekki að ræða um, önnum kafnir bændur myndu alls ekki hafa tíma til að "skreppa" með börnin í sund á Hofsós, og ferðamenn hér myndu ekki vera ginnkeyptir fyrir því (svo ferðaþjónustan hér myndi líða stórlega, því þetta, ásamt náttúrunni, er sú afþreying sem sveitin býður upp á). Án skólans væri auk þess ólöglegt að hafa opinn leikskóla, því leikskólakennarinn má ekki vera einn í starfi, einhver þarf að vera til staðar ef eitthvað kemur fyrir leikskólakennarann. Það hangir því allt saman og dómínóáhrifin eru mikil.
Sveitarstjórn hefur sýnt ítrekaðan þrýsting, bæði opinberlega og á bak við tjöldin, það átti að leggja niður skólann og loka sundlauginni án samráðs við heimamenn og án þess að segja þeim frá því fyrirfram... vegna þessarra smáaura. Jafnvel virðast einhverjir hafa haft hugmyndir um að loka Félagsheimilinu Ketilási. Í hinu stóra samhengi, þá er kannski skemmtileg tilhugsun fyrir sveitarstjórn að benda á nokkurra milljóna króna sparnað hér, með því að leggja niður þjónustu og selja mannvirki, en hefði verið látið undan öllum þessum þrýstingi, og íbúar ekki mótmælt því að skóli, sundlaug, félagsheimili og svo leikskóli í framhaldinu væri lagður niður, þá væri um að ræða allt að því algeran niðurskurð á þjónustu innansveitar, að mínu mati.
Þetta lítur því þannig út, frá mínum bæjardyrunum séð, að helst vilji flestir sveitarstjórnarmenn leggja niður byggðina hér til hagræðingar fyrir sveitarfélagið. Það er hins vegar grundvöllur fyrir byggð að hér geti börnin haft það gott, og að hér geti þrifist skemmtilegt mannlíf fyrir fjölskyldufólk. Hver vill ala börnin sín upp í skólabíl, að þau þurfi að eyða allt 360 klukkustundum á ári í skólabíl (þetta eru 9 vinnuvikur fullorðins fólks), eða meira? Hér er harðbýlt og við getum ekki sótt alla þjónustu langar leiðir burt, gegnum veðravíti og fannfergi. Svo þegar búið verður að leggja okkur niður, þá er líklegt að það komi að næstu dreifbýlu sveitum Skagafjarðar í niðurskurði.
Ég bið fólk um að hafa þetta í huga í komandi sveitarstjórnarkosninum, og kjósa flokk sem vill styðja dreifbýlið í Skagafirði, sem vill samstöðu dreifbýlis og þéttbýlis.
Arnþrúður Heimisdóttir
Skipar 9. sæti á lista vinstri grænna í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.