Vel heppnaðir Nýnemadagar á Hólum
Feykir rak augun í að í síðustu viku voru Nýnemadagar hjá Háskólanum á Hólum. Það var því ekki úr vegi að spyrja Hólmfríði Sveinsdóttur rektor hvernig til hefði tekist. „Nýnemadagar tókust með eindæmum vel í ár. Mætingin var mjög góð og dagskrá daganna var vel skipulögð,“ sagði hún.
Á fyrri deginum, sem var mánudagurinn 26. ágúst, ávarpaði rektor nemendur ásamt tveimur nemendum sem lokið hafa námi eða eru nú þegar í námi við Háskólann á Hólum. „Þar á eftir fengu nemendur kynningu á hvað háskóli er og fóru svo út í hópefli. Þar sem veðrið var mjög gott var hópeflið í Hólaskógi þar sem nemendur bjuggu til birgi úr trjágreinum. Kynning á starfsfólki og stoðþjónustu fór svo fram seinni partinn. Þar á eftir var farið í sögugöngu um Hólastað og þar var af nógu af taka enda Hólar einn söguríkasti staður á Íslandi. Deginum lauk svo með grillveislu við Bjórsetur Íslands undir dillandi söng og harmoníkkuleik Geirmundar Valtýrssona í fallegu skagfirsku sólsetri.“
Seinni daginn héldu kynningar áfram á stoðsviði skólans auk fyrirlestrar um gagnrýna hugsun og siðferði í samskiptum. Deildir skólans tóku svo við og kynntu starfsemi sína ásamst því sem stúdentafélagið var með kynningu. Um kvöldið var stúdentafélag Háskólans á Hólum með pizzakvöld og skemmtidagskrá. Kennsla hófst svo á miðvikudeginum í öllum þremur deildum skólans.
Er fækkun eða fjölgun í skólanum? „Alls bárust 160 umsóknir um skólapláss fyrir umsóknarfrestinn í júní en við tókum við umsóknum fyrir námsbrautir sem gátu bætt við sig nemum fram að skólabyrjun þannig að umsóknir voru heldur fleiri,“ segir Hólmfríður. „Við tökum við umsóknum í hefðbundið meistaranám allt árið og því tilviljun hvort umsóknir um meistaranám berist fyrir eða eftir grunnnámsfrestinn í júní. Umsóknartölur júnímánaðar eru því ekki sami mælikvarði á fjölda umsókna við Háskólann á Hólum og þau eru við aðra háskóla. Að auki sækja að jafnaði rúmlega 100 nemar um meistaranám við Háskólann á Hólum í gegnum umsóknargáttir erlendra háskóla, fyrir námsleiðir sem unnar eru í samvinnu Háskólans á Hólum við erlenda háskóla. Þetta á við meistaranámið MARBIO (sjávarlíffræði) og NOFRI (útivistarfræði).“
Hólmfríður segir að á þessu skólaári hafi ferli fyrir umsóknir utan EES svæðisins verið breytt þannig að umsóknum þaðan fækkaði verulega en innritunarhlutfall af innsendum umsóknum hækkaði á móti. „Fækkun á umsóknum hefur því ekki áhrif á heildarfjölda innritaðra nema en hlutfall samþykktra umsókna hækkar verulega.
Eru nemendur að sækja í nám sem í boði er á Hólum? „Háskólinn á Hólum býður upp á sérhæft nám sem er eftirsótt af atvinnulífinu og umsóknartölur endurspegla gjarnan þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma. Þetta sést skýrt í námsbrautunum viðburðastjórnun og fiskeldi síðustu árin. Viðburðastjórnun tekur mikið stökk á milli ára þrátt fyrir að hafa einnig aukið við sig í fyrra, enda er atvinnugreinin í miklum vexti og viðburðastjórnunarnemar Háskólans á Hólum hafa verið áberandi í stjórnun viðburða á síðastliðnum árum. Námið er kennt í fjarnámi og staðlotum og því algengt að nemar séu þegar í starfi tengdu viðburðastjórnun eða fari í slík störf á meðan á náminu stendur.
Hólmfríður segir að ásókn í nám í fiskeldi hafi tekið töluvert stökk á síðasta ári og aukningunni frá síðasta ári sé viðhaldið í ár. „Þetta endurspeglar enn og aftur þá miklu þörf sem er á sérhæfðu starfsfólki í fiskeldi og fjölmörg dæmi um að umsækjendur séu þegar í starfi hjá fiskeldisfyrirtækjum. Fyrirtækin hafa hvatt starfsmenn til að sækja um og greiða gjarnan námskostnaðinn og full laun á meðan á námi stendur. Það verður að teljast sérstakt að skólinn sé enn án húsnæðis fyrir þetta nám, sem er svo skýrt kallað eftir af atvinnulífinu. Telja má líklegt að skortur á húsnæði hafi neikvæð áhrif á fjölda umsækjenda og enn fleiri umsækjendur séu að bíða eftir ásættanlegri námsaðstöðu áður en þeir sækja um á næstu árum.“
Hún segist vilja hrósa fiskeldisfyrirtækjum landsins fyrir samstarfið á þessum fordæmalausu tímum, en mörg þeirra hafa boðið skólanum að kenna verklegar greinar í aðstöðu fyrirtækjanna til að tryggja námsframboðið.
„Nýtt húsnæði fyrir kennslu í fiskeldis- og fiskalíffræði er meðal okkar helstu forgangsverkefni enda alvarlegt fyrir samfélagið á Íslandi að eini háskólinn á landinu sem býður upp á háskólanám í fiskeldi sé án ásættanlegrar kennslu- og rannsóknaraðstöðu,“ bætir Hólmfríður við.
Ásókn í grunnnám í reiðkennslu og reiðmennsku er svipuð á milli ára en einungis 20 nemendur eru teknir inn í námið á ári hverju. „Í haust var reyndar gerð undanþága á því og munu því 22 nemendur hefja nám við Hestafræðideild Háskólans á Hólum. Það er óljóst hvort viðræður um háskólasamstæðu hafi haft áhrif á fjölda umsókna í ár, en talið er líklegt að áhrifin komi frekar fram á næstu árum þegar samstarfið er hafið. Undirbúningsvinnu miðar vel áfram en samstæðan hefur ekki verið stofnuð og því ekki um formlegt samstarf að ræða við umsóknarferlið í ár.
Hvernig er útlit með framkvæmdir við háskólabyggingu á Króknum, er kominn einhver tímapunktur á þær? „Við stefnum enn að því að fyrsti fasi verði tilbúinn á haustmisseri 2025. Frumathugun er á lokametrunum og eftir það hefst hönnun á húsnæðinu. Fyrsti fasi mun hýsa rannsókna- og kennsluaðstöðu í lagareldi. Annar fasi, sem mun hýsa skrifstofur, almennar kennslustofur, rannsóknastofu, nýsköpunarrými o.fl., er áætlaður að klárist árið 2027.“ Hún bætir við að á Hólum sé einnig áætlað að fara í uppbyggingu á kennslu- og rannsóknahúsnæði. „Munum við leggja allt kapp á að það húsnæði verði risið árið 2027. Við eigum von á að myndun Háskóla Íslands háskólasamstæðnnar muni verulega efla starfsemi Háskólans á Hólum í Skagafirði og því er mikilvægt að uppbygging á húsnæði gangi greiðlega svo hægt verði að efla háskólastarfsemina í viðunandi húsnæði.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.