"Tryggjum ódýr leikskólapláss áfram"

Næstkomandi laugardag göngum við Skagfirðingar að kjörborðinu og kjósum okkur nýja sveitarstjórn, eins og flestir Íslendingar. Framsóknarmenn í Skagafirði leggja mikla áherslu á barnafólkið, enda nauðsynlegt að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur í þessum málaflokki. Með tilkomu nýs leikskóla á Sauðárkróki verða ekki fyrir hendi biðlistar á leikskólum þar. Það skiptir miklu máli þegar fólki fjölgar í sveitarfélaginu að grunnþjónusta eins og leik- og grunnskólar sé í fullkomnu lagi.

Í upphafi kjörtímabilsins beittum við framsóknarmenn okkur fyrir lækkun dagvistunargjalda í leikskólum sveitarfélagsins um 20%, eins og við höfðum lofað fyrir kosningar. Auk þess hefur afsláttarkerfi verið breytt þannig að nú greiða foreldrar aðeins fullt gjald fyrir eitt barn, helmingsgjald fyrir annað barn og ekkert fyrir fleiri. Af þessum sökum hefur kostnaður hjá barnmörgum fjölskyldum lækkað mikið.

Á þeim tímum sem við búum við í dag er mikil hætta á verðhækkunum og gjaldskrárhækkunum sem geta komið sérstaklega illa við barnafjölskyldur. Við framsóknarmenn höfnum hækkun á leikskólagjöldum í sveitarfélaginu á komandi kjörtímabili umfram vísitölu. Það þýðir að leikskólagjöld verða að raunvirði þau sömu allt kjörtímabilið.

Sveitarfélagið Skagafjörður skipar sér í flokk með þeim sveitarfélögum sem bjóða upp á hvað  ódýrust leikskólapláss yfir landið. Í þeim flokki ætlum við að vera áfram á komandi kjörtímabili.

Setjum X við B á laugardaginn og tryggjum ódýr leikskólapláss  áfram.

Ingi Björn Árnason

Skipar 8. sæti lista Framsóknarflokksins

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir