„Pabbi hefur reglulega verið að minna á að hann hafi verið alveg framúrskarandi markmaður“

Óskar Smári frá Brautarholti var vökvaður af leikmönnum sínum eftir að hafa stýrt liði Fram upp í Bestu deildina. MYNDIR: KIDDI TR
Óskar Smári frá Brautarholti var vökvaður af leikmönnum sínum eftir að hafa stýrt liði Fram upp í Bestu deildina. MYNDIR: KIDDI TR

Feykir á það til að minnast á að fyrirliði kvennaliðs Tindastóls í fótboltanum, Bryndís Rut, sé frá Brautarholti, rétt norðan við Varmahlíð. Hún er auðvitað ekki eina fótboltabullan þaðan því bróðir hennar, Óskar Smári Haraldsson, er eins og margir vita á kafi í boltanum og hefur síðustu þrjú sumur þjálfað lið Fram í kvennaboltanum. Tók við liðinu í 2. deild, fór strax með það upp í Lengjudeildina og eftir tvö ár í þeirri skemmtilegu deild þá tryggðu Framarar sér sæti í Bestu deildinni nú um helgina. Feyki þótti tilefni til að óska kappanum til hamingju og taka púlsinn af þessu tilefni.

„Nei ég get ekki sagt að árangurinn komi mér á óvart,“ segir Óskar Smári þegar Feykir spyr hvort árangur sumarsins hafi komið honum á óvart. „Það vissulega þurfti allt að ganga upp, lítið um meiðsl og liðið þurfti að smella sem það gerði. Þannig nei, draumamarkmiðið var að fara upp og það tókst.“

Hverjir eru styrkleikar Fram? „Á bakvið svona árangur er ekki bara leikmanna- og þjálfarahópur, heldur starfsmenn félagsins og sjálfboðaliðar sem hafa eytt endalausum tímum í vinnu fyrir félagið. Félagið tók risa skref í ár og á þetta að mínu mati skilið – eins og flest lið sem ná árangri þá er grunnvinnan góð. Samheldnin og liðsheildin í liðinu er mikil, leikstíll liðsins er skemmtilegur og hentar leikmannahópnum vel. Við gefum okkur út fyrir það að vera beinskeittar og líkamlega sterkt lið, sem við svo sannarlega erum.“

Einn af lykilleikmönnum Fram í sumar var Murielle Tiernan sem sex sumur þar á undan lék með liði Tindastóls. Hún reyndist happafengur fyrir Fram rétt eins og hún var með Stólastúlkum. Þegar í ljós kom að leiðir hennar og Tindastóls skildu síðasta vetur valdi hún að spila deild neðar – þrátt fyrir tilboð úr Bestu deildinni – svo hún þyrfti ekki að spila gegn vinkonum sínum í liði Tindastóls.

Gat Murr eitthvað í sumar – heldurðu að þú náir að plata hana í eitt tímabil í viðbót eða neitar hún að spila gegn Stólastúlkum? „Murr var mjög öflug í sumar. Framherjar eru dæmdir út frá mörkum og eflaust einhverjir sem velta því fyrir sér að hún hafi ekki skorað eins mörg mörk og áður fyrr í Lengjudeildinni. Staðreynd málsins er samt sú að hún skorar 13 og leggur upp hátt í 20 mörk. Frábært tímabil hjá henni eins og liðinu öllu. Hvort Murr spili með okkur á næsta ári kemur bara í ljós, hún er auðvitað Tindastólskona í húð og hár. Í lokaleiknum okkar í sumar tók ég hana útaf snemma í síðari hálfleik eftir flugeldasýningu [hat trick] hjá henni í þeim fyrri. Mín fyrstu orð voru að Tindastóll væri að vinna 3-0 og rak hún upp risastórt bros í tilefni þess.“

Óskari Smára vefst tunga um tönn

hefur verið svolítil umræða um að tímabært sé að fjölga liðum í Bestu deild kvenna úr tíu í tólf. Áttu von á því að liðum verði fjölgað strax á næsta tímabili? „Nei, ég á ekki von á því á næsta ári. Ég myndi vilja sjá það gerast samt á næstu árum – fjölgum keppnisleikjum. Það er gríðarlega mikilvægt að stelpur fái jafn marga leiki og strákar í efstu deild.“

Hvernig leist þér á lið Tindastóls í sumar og árangur liðsins? „Mér leyst vel á Tindastólsliðið í sumar. Grunnurinn ennþá heimastelpur og góðir atvinnumenn með. Ungar stelpur sem tóku risastórt skref í sumar voru einnig í stóru hlutverki. Liðið er að breyta um fasa og komu margir leikir í sumar sem mér fannst liðið spila alveg feykilega vel. Donni hefur gert alveg einstaklega vel með stelpurnar, enda einn færasti þjálfari landins. Mér finnst eins og liðið hafi ekki fengið eins mörg stig og það átti skilið, það eru strax 3-4 leikir sem ég man eftir þar sem stelpurnar spiluðu mjög vel en fengu lítið fyrir sinn snúð í þeim leikjum. Það er strax komin mikil tilhlökkun hjá mér að koma heim á næsta ári og spila við Tindastól!“

Hvernig stendur á þessum fótboltagenum úr Brautarholti, hverjum er þetta að kenna? „Ég hef fengið margar erfiðar spurningar tengdar fótboltanum Óli en ég verð að gefa þér að þessi er ein sú erfiðasta! Pabbi hefur reglulega verið að minna á að hann hafi verið alveg framúrskarandi markmaður þegar hann var yngri. Hvað svo sem er til í því þá ætla ég að leyfa honum að njóta vafans og trúa því og segja að þetta hljóti að koma frá honum! Mamma var aldrei í íþróttunum en hefur stutt við okkur Bryndísi, rétt eins og gamli. Baldur náði aldrei neinum hæðum í boltanum, ég tel suðið um að fá vítaspyrnu í hvert einasta skipti sem hann tapaði úti á túni fyrir mér eða Bryndísi vera örsök þess. Hvað svosem það telur þá er ég einstaklega stoltur af því að vera frá Brautarholti og sameinar fótboltinn okkur fjölskylduna mikið,“ segir Óskar Smári léttur í lokin.


Á myndinni hér fyrir ofan sést Murr , til hægri, fagna sæti Fram í Bestu deildinni og glöggir lesendur ættu í það minnsta að kannast við eitt andlit til viðbótar úr liði Tindastóls. Önnur frá vinstri er nefnilega Dominiqe Evangeline Bond-Flasza (Dom) sem lék með Stólastúlkum í Pepsi Max deildinni sumarið 2021. Hún gekk til liðs við Fram um mitt sumar en í fyrra spilaði hún með liði Grindavíkur. Þess má að lokum geta að fjórða Tindastólstengingin í Fram er Sylvía Birgisdóttir en hún lék sömuleiðis með Stólastúlkum sumarið 2021, kom þá að láni frá Stjörnunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir