Óbyggðanefnd kynnir kröfur fjármálaráðherra um þjóðlendur á Norðurlandi vestra
Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins hefur afhent óbyggðanefnd kröfur sínar um þjóðlendur á Norðvesturlandi Húnavatnssýslu vestan Blöndu ásamt Skaga (svæði 8 norður). Óbyggðanefnd, sem er sjálfstæður úrskurðaraðili, kynnir nú þessar kröfur í þeim tilgangi að ná til þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta.
Í stuttu máli er þjóðlendukröfum lýst þannig af hálfu fjármálaráðherra:
Í hluta Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu er gerð krafa til svokallaðs Almennings á Skagaheiði, afréttarsvæðis sem liggur á miðri Skagaheiði og afmarkast af merkjalýsingum aðliggjandi jarða. Almenningur á Skagaheiði liggur í Austur-Húnavatnssýslu að vestan en Skagafjarðarsýslu að austan og innan sveitarfélaganna Skagabyggðar, Skagastrandar og Skagafjarðar. Þá er gerð krafa til samliggjandi svæða Staðarafréttar, Höskuldsstaðaafréttar og Skrapatunguafréttar sem liggja í Sveitarfélaginu Skagafirði og Blönduósbæ, sem og við Húnavatnshrepp.
Í Vestur-Húnavatnssýslu er gerð krafa til svokallaðrar Breiðabólsafréttar Engjabrekkuafréttar) sem er afrétt er liggur á miðju Vatnsnesinu og afmarkast af merkjalýsingum aðliggjandi jarða. Breiðabólsafrétt liggur í sveitarfélaginu Húnaþingi vestra.
Í Austur-Húnavatnssýslu er gerð krafa til Sauðadals, sem afmarkast af Vatnsdalsfjalli að vestan og Svínadalsfjalli að austan, og liggur í sveitarfélaginu Húnavatnshreppi.
Í hluta Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu aðgreinir þjóðlendukröfulínan heimalönd frá afréttarsvæðum og nær yfir Auðkúluheiði, Forsæludalskvíslar, Grímstunguheiði, Haukagilsheiði, Víðidalstunguheiði, Núpsheiði, Húksheiði, Aðalbólsheiði og Staðarhreppsafrétt (Óspaksstaðadal) allt suður til öræfa, að mörkum kröfulýsingarsvæða á miðhálendinu. Austan megin liggja kröfusvæðin í Húnavatnshreppi og vestan megin í Húnaþingi vestra.
Nákvæma afmörkun og yfirlitskort er að finna á heimasíðu óbyggðanefndar (obyggdanefnd.is) og á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga og sýslumannsembætta. Kröfur þessar eru birtar með lögformlegum hætti í Lögbirtingablaðinu í dag, 5. júlí, og þar er skorað á þá sem telja til eignarréttinda á þjóðlendukröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir óbyggðanefnd innan sex mánaða, nánar tiltekið í síðasta lagi mánudaginn 7. janúar 2013.
Að loknum framangreindum sex mánaða fresti fer fram opinber kynning á heildarkröfum (ríkis og annarra) og stendur í einn mánuð. Einnig er svæðinu skipt í mál og boðað til fyrstu fyrirtöku. Mál eru síðan tekin fyrir eins oft og þörf er á, frekari gögn lögð fram og leitast við að skýra þau að öðru leyti. Loks fer fram svokölluð aðalmeðferð, með tilheyrandi vettvangsskoðun, skýrslutökum og málflutningi. Að lokinni aðalmeðferð eru mál tekin til úrskurðar og úrskurður kveðinn upp í kjölfarið.
Verkefni óbyggðanefndar er að úrskurða um annars vegar kröfur fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og hins vegar kröfur þeirra sem telja sig eiga öndverðra hagsmuna að gæta, nánar tiltekið 1) hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, 2) hver séu mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og 3) hver séu eignarréttindi innan þjóðlendu.
Þess skal loks getið að óbyggðanefnd hefur þegar lokið umfjöllun um eignarlönd og þjóðlendur á 70% af landinu öllu og 86% lands á miðhálendinu, samkvæmt skipulagslegri skilgreiningu á því hugtaki.
Óbyggðanefnd
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.