Sigurlína Erla valin félagi ársins 2024
Um miðjan nóvember fór fram netkosning um félaga ársins hjá Landssambandi Hestamanna en þessi viðurkenning er hvatningarverðlaun fyrir sjálfboðaliða og félaga hestamannafélaga sem vinna fórnfúst og óeigingjarnt starf í þágu hestamennskunnar. Stjórn LH óskaði eftir tilnefningum frá aðildarfélögum LH að félaga ársins, ásamt rökstuðningi fyrir valinu og var það svo í höndum félagsmanna að kjósa hver yrði valinn sem félagi ársins. Þeir einstaklingar sem voru tilnefndir voru Kristín Thorberg - Funa, Ragnheiður Þorvaldsdóttir - Herði og Sigurlína Erla Magnúsdóttir - Skagfirðingi.
Á degi menntadags landsliðsins þann 30. nóvember, var félagi ársins 2024 heiðraður og var það Sigurlína Erla Magnúsdóttir úr Skagfirðingi sem bar sigur úr bítum úr kosningunni. Þá segir í tilkynningunni að Sigurlína hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins í mörg ár. Hún kom inn í stjórn Skagfirðings árið 2021, Meistaradeildar KS árið 2020 og stjórn reiðhallarinnar á Sauðárkróki (Flugu) árið 2022 sem formaður og er enn í dag.
Sigurlína er “JÁ” manneskja, hún er alltaf boðin og búin til að aðstoða hvar sem þess gerist þörf. Hún er einn af drifkröftum í reiðhöllinni í Skagafirði ásamt því að standa vaktirnar í sjoppunni við fjáröflunarstarfið. Sigurlína hefur staðið vaktina við marga viðburði og mót á vegum Skagfirðings þar á meðal framkvæmdanefndum fyrir Íslandsmót og Landsmót.
Hún er jákvæð, drífandi og mjög svo óeigingjörn á sinn tíma fyrir félagið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.