Við þökkum traustið
Síðastliðinn laugardag fóru fram sögulegar kosningar til Alþingis. Ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu miklu fylgi og flokkur fyrrum forsætisráðherra datt af þingi, sem og Píratar og Sósíalistar náðu ekki inn. Flokkur fólksins er einn af sigurvegurum kosninganna og vann stóran sigur, fór úr 8.9% árið 2021 í 13,8% og bætti við sig tæplega 13 þúsund atkvæðum. Í Norðvesturkjördæmi rúmlega tvöfaldaði Flokkur fólksins fylgi sitt í atkvæðum talið, fékk 16,7% og tvo þingmenn einn flokka í kjördæminu.
Í kosningabaráttunni fann Flokkur fólksins fyrir mjög miklum meðbyr og jákvæðni, sem og mikinn vilja til breytinga og nýrra áherslna við stjórn landsins. Í Norðvesturkjördæmi er krafan skýr um jöfn búsetuskilyrði í landinu, atvinnufrelsi sjávarbyggða og áratuga innviðaskuld er enn til staðar. Krafa er að átak verði gert í uppbyggingu grunninnviða og að þeir standist samanburð við höfuðborgarsvæðið. Er þar átt við samgöngur, heilbrigðisþjónustu, orkumál, menntun og fjarskipti svo eitthvað sé nefnt.
Ég vil þakka kjósendum Norðvesturkjördæmis það mikla traust sem Flokki fólksins var sýnt í alþingiskosningunum síðastliðinn laugardag. Ég þakka árangurinn því að kjósendur í kjördæminu hafa trú á málflutningi okkar og þeim forgangsmálum sem flokkurinn berst fyrir og metur vinnu okkar á síðasta kjörtímabili. Einnig því jákvæða hugarfari sem Flokkur fólksins stendur fyrir þegar kemur að viðfangsefnum samfélagsins.
Flokkur fólksins lítur með bjartsýni til næsta kjörtímabils og þeirra verkefna sem bíða okkar í að bæta íslenskt samfélag. Í kosningunum endurnýjaði flokkurinn umboð sitt og með tveim þingmönnum frá Flokki fólksins hefur Norðvesturkjördæmi eignast öfluga málsvara.
Við erum þakklát kjósendum kjördæmisins fyrir þá góðu kosningu sem Flokkur fólksins fékk á kjördag og við munum vinna eftir fremsta megni. að málefnum kjördæmisins. Flokkur fólksins þakkar traustið.
Höfundur var kjörinn 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis í alþingiskosningunum 30. nóvember sl.
Eyjólfur Ármannsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.