Ljósleiðari fór í sundur við Skagaströnd í morgun

Skagaströnd - mynd tekin af skagastrond.is
Skagaströnd - mynd tekin af skagastrond.is
Huni.is segir frá því að mestallt fjarskiptasamband hafi legið niðri á Skagaströnd frá því í morgun eftir að ljósleiðarastrengur fór í sundur vegna vatnavaxta í Hrafná. Áætlað var að viðgerð á ljósleiðaranum myndi taka um sex klukkustundir og mátti því búast við að netsamband yrði komið aftur á um klukkan 14 í dag.
 
Ljósleiðarinn til Skagastrandar er eintengdur og segir Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri á Skagaströnd, í samtali við Ríkisútvarpið, afar mikilvægt að koma þar á hringtengingu. Segir hún að allt fjarskiptasamband hafi rofnað nema tetrasamband og að Skagaströnd hafi í raun verið án allra helstu samskipta þegar kemur að öryggismálum. „Það var hvorki netsamband né símasamband - símasamband allavega mjög slitrótt. Netsamband virðist vera alveg úti, einhversstaðar er hægt að ná í gegnum 4G og 5G.“
 

„Það sem gerist þegar þetta á sér stað er að það verður bara almannahættuástand á Skagaströnd. Síðast þegar þetta gerðist þá fór ég sjálf með Tetrastöð og keyrði á milli gatna í sveitarfélaginu, ef ske kynni að ég myndi sjá eitthvað. Og það er náttúrulega bara eitthvað sem gengur ekkert upp að það sé eina viðbragðið sem við erum með,“ segir Alexandra í samtali við Ríkiútvarpið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir