Björgunarfélagið Blanda vígði nýtt húsnæði á 25 ára afmæli félagsins
Fjölmenni var við vígslu nýs húsnæðis og 25 ára afmælis Björgunarfélagsins Blöndu um helgina en blásið var til hátíðardagskrár á laugardaginn og stóð dagskráin frá kl. 12:00 til 17:00. Liðlega 200 manns litu við og skoðuðu glæsilegt húsnæði félagsins sem staðsett er í nýju húsnæði uppi á svokölluðu Miðholti á Blönduósi, segir á huni.is.
Formleg dagskrá hófst á nokkrum ávörpum en þau fluttu Þorgils Magnússon, formaður félagsins, Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, formaður Landsbjargar, Zophonías Ari Lárusson, fyrsti formaður félagsins við stofnun þess árið 1999, Gunnar Sigurðsson, fyrrum formaður Björgunarsveitarinnar Blöndu og Auðunn Sigurðsson, formaður byggðarráðs Húnabyggðar. Þá blessaði Sr. Magnús Magnússon húsið og flutti bæn ásamt varaformanni félagsins Hjálmari B. Guðmundssyni en Hjálmar stýrði jafnframt dagskránni. Boðið var upp á afmælistertur, kaffi, kakó og annað góðgæti á meðan gestir skoðuðu þetta glæsilega húsnæði sem félagsmenn og konur eru afskaplega stolt af.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.