Lærdómsrík kosningabarátta

Að taka þátt í kosningabaráttu er lærdómsríkt ferli. Heimsókn okkar Vinstri grænna í Árvist, tómstundaskóli  Árskóla, var þó það sem ég hef lært hvað mest af. Í fyrsta lagi lærði ég hve kröftugt og metnaðarfullt starfsfólk getur gert þrátt fyrir erfiðar vinnuaðstæður. Húsnæði Árvistar er töluvert of lítið, svo ekki sé meira sagt. Þar vistast nú yfir 76 börn í litlu einbýlishúsi sem er löngu orðið of lítið, m.t.t. pláss til matar og leiks. Þar una hins vegar börnin sátt við sitt og vilja helst ekki missa úr dag.

Því er að þakka sá góði andi sem fylgir því frábæra starfi sem þar er unnið. Í öðru lagi lærði ég hve illa sveitarfélagið hefur staðið sig í umgjörð skólastarfs á Sauðárkróki. Þegar gengið var með okkur í gegnum húsið var bent á hversu stór hluti húsgagna og námsgagna voru gjafir frá einstaklingum og fyrirtækjum. Ég átti ekki orð og spurði því til öryggis hvort það væri ekki sveitarfélagið sem ræki þessa starfsemi. Svarið var jú, en skortur á fjármagni hefur valdið því að starfsfólk hefur sjálft orðið að sækja björg í bú.  Það er frábært að eiga svona gott og sjálfbjarga starfsfólk en segir það ekki eitthvað um forgangsröðunina í sveitarfélaginu að börnin sitji á gömlum kirkjubekkjum í leikherbergjum! Staðreyndin er því sú að húsnæðis-og aðbúnaðarvandi skólabarna á Sauðárkróki er ekki eingöngu vegna seinkunar á nýbyggingu Árskóla heldur nær vandinn einnig til Árvistar sem fleytir sér áfram á herðum einstaks starfsfólks sem vinnur við óviðunandi aðstæður.

Í viðtölum mínum við fólk í þessu stóra sveitarfélagi hefur ítrekað komið fram að því finnst það afskipt og að sveitarfélagið styðji ekki nægjanlega við þann kraft sem býr hér í mannlífinu. Frumkvæði fólksins í Skagafirði má ekki vera haldið niðri af sveitarstjórninni. Það er einkennileg staðreynd þar sem sveitarstjórnin á að starfa í umboði fólksins með þarfir þess í forgrunni. Það sem við hjá Vinstri grænum höfum lagt upp með fyrir þessar kosningar er skref í rétta átt. Vinna þarf að úrbótum á leigumarkaði til þess að fólk geti komið hér undir sig fótunum. Það má e.t.v. að hluta til gera með því að bjóða hagstæð lóðakjör og fyrirgreiðslur til að örva íbúðabyggð og nýbyggingar. Til atvinnusköpunar þarf að hlú að uppbyggingu sprotafyrirtækja og fjölbreytni í atvinnu-og menntalífi svæðisins.  Með samstilltu átaki má því fjölga fólki hér á svæðinu.  Til að fólk endist hér og telji svæðið vænlegt til barnauppeldis þarf að efla aðbúnað og auka afþreyingarmöguleika fjölskyldufólks. Það er hægt að gera á tiltölulega einfaldan hátt með því að fjölga útivistarsvæðum og búa vel að þeim sem fyrir eru, gera umbætur í leikvallamálum og byggingu leikvalla á helstu þéttbýlisstöðum. Uppsetning hraðahindrana og lækkun hámarkshraða í íbúðagötum er einnig aðkallandi til þess að gera umhverfið barnvænna og öruggara.  Með þessum áherslum má hafa jákvæð áhrif á líf fólks frá degi til dags og hlú þannig að innviðum samfélagsins.

Í kosningum á laugardaginn þarf fólk fyrst að mæta á kjörstað......en einnig að kjósa með það fyrir sjónum að ný sveitarstjórn sé í stakk búin til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og gæta hagsmuna fólksins sem hér býr. Það geta Vinstri grænir gert með öflugt fólk í brúnni, skilvirkar áherslur og vilja til samvinnu með þarfir samfélagsins í forgrunni.

Arnrún Halla Arnórsdóttir, hjúkrunarfræðingur

3ja sæti Vinstri grænna í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir