Íbúðir í nýbyggingum á Hvammstanga og Blönduósi til sölu
Íbúðir í fyrirhuguðum nýbyggingum við Hnjúkabyggð 29 á Blönduósi og Höfðabraut 28 á Hvammstanga hafa verið auglýstar til sölu en til stendur að byggja þar fimm hæða fjölbýlishús með 20 íbúðum í hvoru. ASK arkitektar annast hönnun húsanna og byggingaraðili er Uppbygging ehf., Loftorka sér um forsteyptar einingar og innréttingar eru frá Voké-lll.
Íbúðirnar sem um ræðir eru tveggja, þriggja og fjögurra herbergja og eru u.þ.b. 61,5 m2, 86 m2 og 100m2 að stærð. Það er Húseign fasteignamiðlun sem annast sölu íbúðanna.
Í samtali við Húna.is segir Baldvin Ómar Magnússon hjá Húseign fasteignamiðlun að áætlað sé að afhenda kaupendum íbúðirnar í byrjun árs 2020 en það miðist við að bygging þeirra geti hafist í byrjun næsta árs. Segir hann að íbúðirnar verði sérlega glæsilegar með harðparket í öllum rýmum nema forstofu og baðherbergjum þar sem verði flísar. Innihurðir verði yfirfelldar eikarhurðir, baðherbergisveggir flísalagðir og baðherbergi með loftræstingu. Svalir verði steyptar með galvinseruðu járnhandriði og klætt með plastplötum. Útveggir húsanna verði einangraðar forsteyptar einingar, loftplata steypt og gluggar og hurðir úr timbri og áli. Stéttar við aðalinnganga verði steyptar og hellulagðar með hitalögnum að hluta, lóðir þökulagðar og bílaplön malbikuð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.