Hnúfubakar á nætursundi

http://www.youtube.com/watch?v=fx1U7EAGrx4Á heimasíðu Skagfirðingarsveitar segir frá því að fyrir skemmstu var haldið slöngubátanámskeið í Sveinsbúð sem var ágætlega sótt. Einhver kraftur virðist hafa losnað úr læðingi hjá bátahóp sem hefur verið óvenju duglegur við að fara á sjó uppá síðkastið.

Um síðustu helgi (Hvítasunnuhelgina) héldu 5 vaskir sveinar úr bátahóp í nætursiglingu og lögðu upp frá Reykjum á tveimur slöngubátum. Ferðinni var heitið út í Drangey en ekki höfðu sveinarnir siglt lengi þegar sá sem elstur er og sjóndaprastur í hópnum rak augun í hóp af hvölum.

Lengi vel héldu ferðalangar að þeir væru að horfa á hrefnur en eftir því sem best verður komist voru skepnurnar hnúfubakar. Ef eitthvað er að marka hinn alvitra hr. wikipedia eru dýrin gjarnan um 36 tonn og 12-16 m. á lengd, en samkvæmt sömu heimild geta dýrin orðið umtalsvert stærri og þyngri. Ekki er gott að henda reiður á það hversu mörg dýr voru á ferðinni en þau voru öðru hvoru megin við tuginn. Þegar dýrunum hafði verið fylgt eftir á rólegheita siglingu í nokkurn tíma fór að draga til tíðinda. Á að giska 30 m. frá öðrum bátnum spratt ein skepnan upp á yfirborðið og gott betur, hentist raunar svo langt á loft að enginn hluti skepnunar nam við hafflötinn. Sveinarnir ungu urðu við þetta meira en lítið hissa og þeir sem yngstir eru í hópnum hófu upp skræki sem minntu helst á smásteplur að hlusta á popptónleikum. Uppnámið jafnaði sig þegar hinir eldri og vitrari höfðu róað hina ungu og lítt reyndu hvalaskoðunarmenn. "Ég er ekki vanur að horfa til himins þegar ég er að skoða hvali" var haft eftir einum af hinum þrautreyndu köppum sem voru í ferðinni. Annar bætti við að tilfinningin hafi verið sérstök, "ekki svo að skilja að við séum ekki til í að taka farþega, það fer bara ekki vel um farþega af þessari stærðargráðu í bát Skagfirðingasveitar".

Það skiptir engum togum að dýrið skaust svona uppá sjóndeildarhringinn einum fimm sinnum áður en yfir lauk. Fyrir rest tókst að ná lifandi myndbroti af dýrinu, þegar það tók síðasta stökkið. Vegna tæknilegra vankanta er ekki hefur ekki reynst mögulegt að koma öllu myndefninu á vefinn. Hér að neðan er slóð á stutt myndskeið sem var splæst saman en myndgæðin eru ekki eins og best verður á kosið. Ef að tækniörðuleikar verða yfirstignir stendur til að setja inn fleiri myndbrot, m.a. þar sem hvalurinn synti á bakinu og veifaði báðum bægslunum áður en hann synti á braut.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir