Gul verðurviðvörun fyrir aðfaranótt föstudags

Hér spá Veðurstofunnar fyrir Strandir og Norðurland vestra kl. 12 á hádegi á morgun, föstudaginn 28. febrúar. SKJÁSKOT
Hér spá Veðurstofunnar fyrir Strandir og Norðurland vestra kl. 12 á hádegi á morgun, föstudaginn 28. febrúar. SKJÁSKOT

Veðrið hefur verið með besta móti síðustu tvær vikur með örfáum undantekningum sem vart eru þess virði að ástæða sé til að minnast á. Veðurstofan hefur nú skellt gulri veðurviðvörun á Strandir og Norðurland vestra frá og með miðnætti. Í dag verður veðrið að mestu stillt og gott, hiti í kringum frostmark, en þegar líður að miðnætti eykst sunnanáttinn, fyrst vestast á svæðinu en færist síðan austur yfir þegar líður á nóttina.

Í viðvörun Veðurstofunnar fyrir Strandir og Norðurland vestra segir: „Suðaustan hvassviðri, 15-20 m/s og snjókoma, sums staðar talverð. Búast má við skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, einkum til fjalla.“ Ef marka má veðurspána sjálfa er útlit fyrir að úrkoma á svæðinu verði mest á Ströndum og í Vestur-Húnavatnssýslu. Þannig virðist sem snjókoma sé ekki í kortunum í Skagafirði fyrr en á laugardagskvöldið.

Á morgun föstudag má reikna með snarpri sunnanátt með úrkomu vestast á svæðinu. Hiti yfir daginn um 4-7 gráður en kólnar þegar líður á daginn. Helgin virðist verða bland í poka eða markast af umhleypingum.

Þess má geta að stefnt er á að spila fyrsta fótboltaleik ársins á Norðurlandi vestra á laugardaginn kl. 14 en þá eiga lið Tindastóls og KF að mætast í Lengjubikarnum á Króknum. Veðurspáin fyrir upphafsflautið er ekki spennandi; vestan 17 metrar á sekúndu og þriggja stiga hiti en léttskýjað. Skagfirska lognið lætur á sér kræla fjórum tímum síðar ef spár ganga eftir.

Ekki er ólíklegt að einhverjar breytingar verði á spánni – það er ekkert fast í hendi með veðrið eins og við þekkjum öll. Því vissara að fylgjast með veðrinu á gottvedur.is og umferðinni á umferdin.is. Sem stendur er snjóþekja á þjóðvegi 1 í Austur-Húnavatnssýslu en víðast annars staðar er hálka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir