Grunnskólinn austan Vatna komst einnig í úrslit Málæðis
Feykir sagði frá því fyrr í vikunni að nemendur Grunnskóla og Tónlistarskóla Húnaþings vestra hefðu sent lag í verkefni Listar fyrir alla sem kallast Málæði og er ætlað að hvetja ungt fólk til að tjá sig á íslensku í tali og tónum.. Þrjú lög voru valin til að keppa til úrslita og það verður að teljast ansi magnað að auk skólans í Húnaþingi vestra þá var framlag Grunnskólans austan Vatna sömuleiðis valið í úrslit. Glöggir lesendur hafa því væntanlega lagt saman tvo og tvo og komist að þeirri niðurstöðu að tvö af þremur laganna í úrslitum komi frá skólum á Norðurlandi vestra.
Að sögn Völu Kristínar Ófeigsdóttur, kennara og umsjónarmann verkefnisins hjá GaV, þá voru það Valgerður Rakel og Dagmar Helga sem sömdu textann og lagið. „Þær spiluðu á gítar og sungu lagið inn á síma og skiluðu því þannig inn. Þetta er rólegt lag sem fjallar um að vera góð manneskja. Það heitir Riddari kærleikans en þær fengu innblástur frá orðum Höllu forseta.“
Næsta mánudag heimsækja skólann á Hofsósi, og vinna með nemendum heilan skóladag, þau GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð) og Vignir Snær sem þekktastur er úr Írafári en hann heldur utan um útsetningu, tökur og flutning á tónlistinni. „Það sem gert verður á þessum skóladegi er að pússa til lag og texta í samstarfi við krakkana. Einnig kemur Sturla tökumaður frá RÚV sem tekur upp efni fyrir sjónvarpsþátt. Tilgangurinn er að krakkarnir læri hvernig maður vinnur lag til útsetningar en líka að þau setji mark sitt á loka niðurstöðuna,“ segir Jóhann Bjarnason skólastjóri.
„Já, það er mjög mikil spenna í hópnum og örlar jafnvel á smá kvíða,“ segir Vala þegar hún er spurð að því hvort nemendurnir séu spenntir fyrir mánudeginum. Hún bætir við að allt unglingastig GaV hafi líka sent inn nokkra texta við lag Bubba, Sumarið 24. Einn hópurinn gekk skrefinu lengra og sendi inn hljóðupptöku þar sem þær sungu inn textann við lagið.
Á útvarpsþingi RÚV á dögunum var hluti lagsins hans Bubba spilaður í lokin á erindi Elvu Lilju, verkefnastjóra Listar fyrir alla, en þar syngja Greta Berglind, Dagmar Helga, Laufey Cara, Valgerður Rakel og Ylfa Marie nýjan texta yfir lag Bubba – nánar tiltekið á 13. mínútu myndbandsins >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.