Góður og stígandi árangur yngri flokka
Árangur yngri flokka Tindastóls í körfubolta í Íslandsmótinu á nýliðnu Íslandsmóti var mjög góður og hefur mikill stígandi verið í árangri þeirra í vetur. Aðeins einn flokkur af sjö flokkum,utan unglingaflokks, kláraði tímabilið ekki í A- eða B-riðli.
Alls voru átta yngri flokkar sendir í Íslandsmótið í vetur sem er með því mesta sem gerist frá Tindastóli. Þetta voru minnibolti stúlkna, 8. flokkur stúlkna og 10. flokkur stúlkna auk stráka í unglingaflokki, 10. flokki, 9. flokki, 8. flokki og 7. flokki. Minnibolta- og míkróboltakrakkarnir tóku síðan þátt í Nettó-mótinu í Reykjanesbæ og Þórs-mótinu á Akureyri.
Minnibolti stúlkna náði frábærum árangri í vetur, en stelpurnar urðu í öðru sæti í Íslandsmótinu og komu heim með silfurpening um hálsinn. Framganga þeirra hefur verið mögnuð í vetur en þær byrjuðu í C-riðli og unnu sig upp í A-riðil, þar sem þær töpuðu aðeins einum leik gegn Íslandsmeisturum Keflavíkur. Hrafnhildur Kristjánsdóttir er þjálfari stúlknanna. Hún hóf leik með átta stúlkna leikmannahóp sl. haust, en á endanum voru stelpurnar orðnar 15 talsins.
8. flokkur stúlkna sýndi sömuleiðis miklar framfarir í vetur og luku keppni með því að sigra B-riðilinn. Þær unnu C-riðilinn í janúar og B-riðilinn í mars. Halldór Halldórsson er þjálfari stúlknanna og hefur hann náð góðum árangri með þær í vetur, en liðið hefur verið í stöðugri framför.
10. flokkur stúlkna vann sig upp um einn riðil í vetur, en þær hófu leiki í C-riðli en unnu þann riðil á Akureyri í síðasta móti vetrarins. Stelpurnar fengu nýja þjálfara eftir að Michael Giovacchini kvaddi Krókinn en þá tók Vanda Sigurgeirsdóttir við stjórninni og hafði hún Halldór Halldórsson sér til aðstoðar. Undir stjórn Vöndu náðu stelpurnar þessum góða árangri sem hægt verður að byggja ofan á.
Af þessum úrslitum stúlknaflokkanna má ráða að framtíðin sé björt í kvennaboltanum og kannski hyllir undir það að eftir 2-4 ár, verði hér kominn grundvöllur fyrir meistaraflokki kvenna.
10. flokkur drengja náði athyglisverðum árangri í vetur fyrir þær sakir að einungis þrír leikmenn voru í hinum eiginlega 10. flokks árgangi, en upp í liðið var fyllt með strákum úr 9. flokki og jafnvel var farið niður í 8. flokk til að sækja liðsstyrk. Kári Marísson stjórnaði þessu liði sem æfði með 9. flokki í vetur. Strákarnir hófu leik í C-riðli og unnu hann í annarri umferðinni og þar með sæti í B-riðli. Þar léku þeir tvær síðustu umferðirnar, unnu einn leik í þriðju umferð og síðan þrjá leiki af fjórum í fjórðu og síðustu umferðinni.
9. flokkur drengja voru sannkallaðir hástökkvarar í vetur. Þeir hófu leik í D-riðli og unnu hann strax í fyrsta móti. Unnu svo C-riðilinn í annarri umferðinni og kepptu því í B-riðli í þriðju umferð. Þar unnu þeir einn leik sem dugði til að halda sér uppi í B-riðli og í síðustu umferðinni unnu þeir tvo leiki og komu sér því þægilega fyrir í B-riðlinum sem er gott veganesti fyrir keppni 10. flokks á næsta tímabili.
8. flokkur drengja var sömuleiðis undir stjórn Kára. Strákarnir hófu leik í B-riðli en fastlega var búist við því að þeir myndu gera harða atlögu að A-riðlinum í vetur. Það tókst í þriðju umferðinni og því komust strákarnir upp í efsta styrkleikariðilinn, A-riðil, sem var sannarlega magnaður árangur. Þar léku þeir í fjórðu og síðustu umferðinni, unnu einn leik, sem dugði til að halda sér þar uppi. Það verður því afar áhugavert að fylgjast með þessum flokki á næsta tímabili.
7. flokkurinn hóf leik í B-riðli en strákarnir léku undir stjórn Sveinbjörns Skúlasonar en síðar tók Hákon Már Bjarnason við þjálfuninni. Þeir héldu sér uppi í B-riðli í fyrstu umferð, en féllu niður í C-riðil í umferð nr. 2. Þeir dvöldu þar ekki lengi því þeir unnu C-riðilinn í þriðju umferð og léku því í síðustu umferðinni í B-riðli. Þar töpuðu þeir öllum sínum leikjum og féllu aftur niður í C-riðil.
Árangri unglingaflokks karla hefur áður verið gerð skil en þeir komust í úrslitakeppni unglingaflokks en töpuðu þar fyrir Narðvíkingum með 13 stiga mun í undanúrslitum. Mjög góður árangur hjá strákunum.
Af þessari upptalningu er ljóst að árangur yngri flokkanna í vetur var mjög stígandi og góður. Unglingaráð starfar eftir markmiðasetningu þegar kemur að árangri sinna keppnisliða og hafa þau markmið náðst í flestum flokkum, sumir verið framar væntingum en aðrir á góðri leið með að ná langtímamarkmiðum.
144 iðkendur voru skráðir í körfuna eftir áramót sem er met. Til þess að árangur náist og til þess að tryggja "framleiðslu" leikmanna upp í meistaraflokka körfuknattleiksdeildar þarf í senn að ná upp góðum fjölda í yngri flokkunum og setja þeim skýr markmið hvað varðar árangur, sem þjálfarar geta síðan unnið út frá.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.